Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management, sem er stærsti hluthafi Icelandair Group, hefur á undanförnum vikum og mánuðum selt hlutabréf í fyrirtækjum í ferðaþjónustu, svo sem flugfélögum, bílaleigum og bókunarsíðum, fyrir meira en eitt hundrað milljarða króna, samkvæmt samantekt Markaðarins.

Eignasafn sjóðsins, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í ferðaþjónustu, minnkaði um liðlega sextíu prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins og var metið á um 2,4 milljarða dala, jafnvirði tæplega 350 milljarða króna, í lok mars síðastliðins.

Nær útilokað er talið að PAR Capital, sem kom fyrst inn í hluthafahóp Icelandair Group í apríl í fyrra, taki þátt í fyrirhuguðu hlutafjárútboði flugfélagsins í næsta mánuði. Rétt eins og gildir um flest flugfélög í eignasafni sjóðsins hefur hann minnkað við sig í íslenska flugfélaginu síðasta mánuðinn, með sölu á samanlagt um 1,2 prósenta hlut, og heldur hann nú á 12,5 prósenta hlut í félaginu.

Eignarhlutur bandaríska sjóðsins í Icelandair Group hefur rýrnað um 5,5 milljarða króna í virði frá því að hann fjárfesti í félaginu fyrir rúmu ári.

Fáir stofnanafjárfestar hafa tapað meira á fjárfestingum sínum á allra síðustu mánuðum – eftir að kórónu­veiran fór að breiðast út um heiminn – en PAR Capital en í umfjöllun bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes frá því í mars síðastliðnum var sjóðurinn nefndur í sömu andrá og Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag sem er stýrt af auðkýfingnum Warren Buffett, og eigna­stýringarfyrirtækið Primecap sem þeir fjárfestar í flugrekstri sem hefðu orðið hvað mest fyrir barðinu á kórónuveirunni.

Stærstu eignir PAR Capital hafa fallið um 25 til 75 prósent í markaðsvirði það sem af er ári.

Þess má geta að Buffett greindi frá því á nýlegum aðalfundi Berk­shire Hathaway að félagið hefði selt öll hlutabréf sín í flugfélögum. Hann sagði flugfélög standa frammi fyrir breyttri heimsmynd í kjölfar kórónufaraldursins.

„Við munum ekki fjármagna fyrirtæki sem við teljum að muni brenna peningum í framtíðinni,“ nefndi Buffett.

PAR Capital hefur selt um 1,2 prósenta hlut í Icelandair Group undanfarinn mánuð.
Fréttablaðið/Ernir

Selur sig niður í flugfélögum

Samkvæmt samantekt Markaðarins, sem byggir á gögnum sem PAR Capital hefur sent bandaríska verðbréfaeftirlitinu, minnkaði fjárfestingarsjóðurinn á fyrstu þremur mánuðum ársins við sig í flestum þeim flugfélögum sem hann hefur fjárfest í.

Sem dæmi seldi hann 2,3 prósenta hlut í United Airlines, 0,6 prósenta hlut í Alaska Air og JetBlue Airways, 0,5 prósenta hlut í American Airlines og Volaris og 0,3 prósenta hlut í SkyWest Airlines.

Jafnframt seldi PAR Capital sig alfarið út úr bílaleigunum Hertz Global og Avis Budget á ársfjórðungnum en fyrir viðskiptin fór hann með 6,4 prósenta hlut í fyrrnefndu leigunni og 0,3 prósent í þeirri síðarnefndu.

Fjárfestingarsjóðurinn minnkaði einnig við sig í bókunarrisanum Expedia, með sölu á 2,5 prósenta hlut, en á sama tíma bætti hann við sig hálfs prósents hlut í helsta keppinautnum, Booking. Er 0,8 prósenta hlutur PAR Capital í síðarnefnda félaginu – að virði um 505 milljóna dala – nú langstærsta einstaka eign sjóðsins.

Auk Booking hefur fjárfestingarsjóðurinn aukið við sig í Spirit Air­lines á síðustu mánuðum en hann fór í lok marsmánaðar með 2,4 prósenta hlut í lággjaldaflugfélaginu borið saman við 0,7 prósenta hlut í lok síðasta árs.

Allt í allt má þannig ætla að PAR Capital hafi selt hlutabréf í ferðaþjónustufyrirtækjum fyrir jafnvirði meira en hundrað milljarða króna á undanförnum mánuðum.

Allt að 75 prósenta lækkun

Hlutabréf flestra þeirra flugfélaga sem PAR Capital fer með hlut í hafa lækkað um meira en helming í verði frá því að kórónuveiran fór að breiðast út um heiminn fyrr á árinu á meðan lækkun hlutabréfaverðs í öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum í eignasafni sjóðsins hefur að jafnaði verið minni.

PAR Capital er á meðal stærstu hluthafa bandaríska flugfélagsins United Airlines.
Fréttablaðið/Getty

Sé litið til stærstu fjárfestinga PAR Capital hefur United Airlines, sem fjárfestingarsjóðurinn fer með 3,2 prósenta hlut í að virði um 190 milljóna dala, fallið um 75 prósent í markaðsvirði frá áramótum.

Hlutabréf í Booking hafa á sama tíma lækkað um 26 prósent í verði, gengi hlutabréfa í Expedia, sem sjóðurinn á 2,8 prósenta hlut í, hefur fallið um 32 prósent og þá hefur hlutabréfaverð í Allegiant Air farið niður um 53 prósent en PAR Capital heldur á 9,7 prósenta hlut í bandaríska lággjaldaflugfélaginu. Sjóðurinn fer auk þess með 0,6 prósenta hlut í Delta Air Lines sem hefur lækkað um 65 prósent í virði á árinu.

Þess má geta að gengi hlutabréfa í Icelandair Group hefur lækkað um tæp 75 prósent það sem af er ári en alls hefur það farið niður um áttatíu prósent frá því að PAR Capital kom fyrst inn í hluthafahópinn í apríl í fyrra.

PAR Capital er sem kunnugt er stýrt af Paul A. Reeder en hann kom sjóðnum á fót árið 1990, þá 27 ára að aldri. Áður hafði hann starfað sem fluggreinandi.