Lagt er til í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 að fjármála- og efnahagsráðuneytið fái heimild til að skoða kaup á Hótel Sögu. Fram kemur í frumvarpinu að húsnæðið gæti hentað undir starfsemi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands sem er nú til húsa í Skipholti og Stakkahlíð.

Það komi til greina að kaupa húsnæðið fáist það á hagstæðum kjörum, fimm milljarðar króna eru áætlaðir í fasteignakaup í frumvarpinu. Hótelið lokaði fyrir rúmu ári vegna Covid-faraldursins, hefur það meðal annars nýst undir nemendur Hagaskóla sem þurftu frá að hverfa vegna myglu í skólahúsnæðinu.

Einnig er að finna heimild til að kaupa jörðina Mið-Fossa í Borgarbyggð undir starfsemi Landbúnaðarháskólans. Skólinn leigir nú aðstöðu á jörðinni.