Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segist fagna því að sérhæfður erlendur langtímafjárfestir sýni landinu áhuga, hvort sem það eru fjarskiptainnviðir eða annað. „Með því að bjóða velkomna hingað til lands sérhæfða erlenda fjárfesta eigum við möguleika á að auka sérþekkingu á atvinnugreininni og þar með efla hana. Það kemur hagkerfinu til góða. OECD hefur leiðbeint aðildarríkjum að fara þessa leið,“ segir hann í samtali við Markaðinn.

Upplýst var á mánudag að Síminn ætti í einkaviðræðum við franskan innviðasjóð um sölu á Mílu. Sjóðurinn er í rekstri hjá Ardian. Líftími sjóðsins er 15 ár en hann hefur verið í rekstri í eitt ár. „Líftími sjóðsins er tiltölulega langur og í samræmi við það sem við sjáum í okkar fjárfestingum erlendis, svona verkefni eru langtímaverkefni,“ segir Ólafur.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu,
Fréttablaðið/Ernir

Fram hefur komið í Markaðnum að líklega verði EBITDA-margfaldari við sölu á Mílu á bilinu 12 til 15 sem gæfi heildarvirði, það er samanlagt hlutafé og skuldir, á bilinu 60-80 milljarðar.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian muni bjóða íslenskum lífeyrissjóðum að ganga með sér inn í viðskiptin og fjárfesta til langs tíma í Mílu samhliða sjóðnum. „Við höfum rætt við íslensk stjórnvöld um hvernig við sjáum Mílu og innviði félagsins snerta þjóðaröryggi. Í smíðum er fyrirkomulag sem tryggir inngrips-, upplýsinga- og eftirlitsmöguleika hins opinbera enn betur en fyrr, þótt eignarhaldið breytist. Rekstur og staðsetning á lykilbúnaði verður í innlendri lögsögu og þar með undir aðgengilegu eftirliti innlendra stofnana, hér eftir sem hingað til. Ekki er hægt að flytja grunninnviði úr landi og stýringar þeirra verða hér,“ segir hann.

Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Ólafur segir mikilvægt við uppbyggingu innviða að hlúa að samkeppnisumhverfinu til að tryggja að ekki sé hægt að hækka verð eftir hentisemi. Ef ekki sé hægt að koma á virkri samkeppni þurfi að koma á fót reglum til að gæta hagsmuna almennings. Það hafi til að mynda verið gert í tilviki Landsnets sem sé í eigu hins opinbera.

Orri bendir á að Fjarskiptastofa stýri með kvöðum og gjaldskrám um það bil tveimur þriðju af tekjum Mílu. Hann segir að um 85 prósent af heimilum landsins séu með ljósleiðaraþræði frá öðrum fyrirtækjum en Mílu og að þrjú farsímakerfi séu í landinu. Það ríki því skýr innviðasamkeppni á markaðnum, auk þjónustusamkeppni þar ofan á. Viðskiptavinir geti fært sig auðveldlega á milli fjarskiptafyrirtækja. „Míla getur því ekki hækkað verð eftir hentisemi,“ segir hann.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, velti upp þeim möguleika að franski sjóðurinn myndi selja óæskilegum fjárfestum Mílu þegar fram í sækir, í fréttum RÚV í gær.

Orri segir að atvinnuvegaráðherra hafi heimild til að stöðva þær erlendu fjárfestingar sem talið sé að Íslandi stafi ógn af. „Hið opinbera er með öryggishnapp ef Evrópubúarnir sem við erum að tala við myndu síðar vilja selja til annarra,“ segir hann.

Ólafur bendir á að samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins sé uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða umtalsverð hér á landi. Viðhaldsþörfin var áætluð 420 milljarðar króna í fyrra eða 14,5 prósent af landsframleiðslu. Hann segir að það sé æskilegt að fá erlenda fjárfesta til að taka þátt í þeirri uppbyggingu. „Það hlýtur að vera jákvætt að erlendir fagfjárfestar sýni innviðum áhuga og létti þar með undir með okkur,“ segir Ólafur.

Innflæði beinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi hefur verið neikvætt allt frá árinu 2016, að því er fram hefur komið í fréttum. Mun meiri hömlur eru á beinni erlendri fjárfestingu á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum OECD.