Hlutabréfagreinendur Landsbankans líta þær miklu breytingar á stjórnendateymi Sýnar jákvæðum augum. Þær séu nauðsynlegar í ljósi erfiðleika í rekstri fyrirtækisins. Á árinu hafa forstjóri, fjármálastjóri og sjö aðrir stjórnendur látið af störfum. Þetta kemur fram í nýju verðmati, sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Sérfræðingar bankans horfa meðal annars til þess að nýir stjórnendur þekki vel til félagsins og þeirra markaða sem það starfi á. „Það á hins vegar eftir að koma í ljós hverjar verða áherslur nýrra stjórnenda og hvernig þeir fara að því að snúa vörn í sókn,“ segir í greiningunni. Mikið verk sé fyrir höndum við að endurheimta viðskiptavini og halda tekjum og framlegð.

Bent er á að verkefni tengd sameiningu Vodafone við fjölmiðla 365 sé flestum lokið eða langt á veg komin og færeyska fjarskiptafélagið Hey hafi verið selt, sem sé af hinu góða því stjórnendur þurfi að einbeita sér að rekstrinum á Íslandi. Þetta ætti að auðvelda stjórnendunum að beina sjónum að samkeppninni á markaðnum.

Í verðmati Landsbankans er talið að EBITDA Sýnar, það er hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir, verði við miðju spábils stjórnenda fyrirtækisins eða 6.138 milljónir króna. „Eftir ítrekaða ofspá fyrrverandi stjórnenda á horfum félagsins teljum viðað núverandi spá félagsins fyrir 2019 hljóti að vera hófsöm,“ segja greinendurnir.

Landsbankinn lækkaði verðmat sitt í 42,5 krónur á hlut á föstudag en markaðsgengið var 35,7 í gærmorgun. Bankinn birti síðasta verðmat í lok mars á síðasta ári sem hljóðaði upp á 77,8 krónur á hlut. Í verðmatinu er ekki gert ráð fyrir viðsnúningi í rekstri strax heldur er beðið eftir sýnilegum árangri í rekstri þar til reiknað er með verulegum rekstrarbata.