Mun færri félagsmenn Samtaka iðnaðarins telja aðstæður í efnahagslífinu góðar til atvinnureksturs í febrúar í ár en á sama tíma á árunum 2016 til 2018. 

Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins sem byggir á könnun meðal félagsmanna sem framkvæmd var af Outcome í febrúar. 

Væntingar forsvarsmanna iðnfyrirtækja til efnahagsaðstæðna á næstunni eru einnig á hraðri niðurleið. Eru niðurstöðurnar sagðar bera vott um þá miklu óvissu sem ríkir með efnahagshorfur nú á vormánuðum, m.a. vegna kjaraviðræðna.

Niðurstöður þessarar nýju könnunar bera vott um talsverða kólnun á vinnumarkaði. Forsvarsmenn 67 prósenta iðnfyrirtækja telja þannig ekki vera skort á starfsmönnum sem er mikil hækkun frá fyrra ári en árin 2017 og 2018 var hlutfallið um 48 prósent. Á sama tíma hefur hlutfall aðspurðra sem finna fyrir skorti á starfsmönnum lækkað umtalsvert, úr 44 prósentum í 27 prósent. Um 75 prósent fyrirtækja segja helst skorta iðnmenntað starfsfólk.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hyggjast 52 prósent forsvarsmanna iðnfyrirtækja mæta launahækkunum með verðlagshækkunum. Um 45 prósent hyggjast mæta slíkum hækkunum með því að skera niður kostnað, þ.e. um 23 prósent með því að fækka starfsfólki og 22 prósent með því að skera niður annan rekstrarkostnað. 

„Ljóst er því að launahækkanir munu leiða til aukins atvinnuleysis í iðnaði og verðbólguþrýstings í hagkerfinu,“ segir í frétt á vef samtakanna.