Fimm íslenskir lífeyrissjóðir, sem fara með meirihluta hlutafjár í Bakkastakka, félagi sem heldur utan um milljarða króna fjárfestingu þeirra í kísilverinu PCC á Bakka við Húsavík, hafa lækkað mat sitt á virði hlutafjár sjóðanna í kísilverinu um á bilinu 75 til 100 prósent. Þá hefur Íslandsbanki, næststærsti hluthafi Bakkastakks með rúmlega 18 prósenta hlut, sömuleiðis fært eign sína „töluvert niður“ en í svari til Markaðarins segist bankinn ekki vilja gefa upp um hversu mikið.

Samtals hafa lífeyrissjóðirnir, ásamt Íslandsbanka, fært niður hlutafé sitt í PCC um liðlega tvo milljarða en þeir lögðu Bakkastakka upphaflega til nærri 2,5 milljarða í hlutafé 2015. Við það eignaðist félagið 13,5 prósenta hlut en þýska fyrirtækið PCC SE fer með 86,5 prósenta hlut í kísilverinu.

Varúðarniðurfærslur sjóðanna – Gildi, Stapi, Birta, Frjálsi og Almenni – koma til vegna mikillar óvissu um starfsemi kísilversins, að minnsta kosti til skemmri tíma. Tafir og erfiðar aðstæður á hrávörumörkuðum hafa einkennt starfsemina frá því að verksmiðjan var formlega gangsett í maí 2018. Í lok mars náðist samkomulag við lánveitendur og hluthafa um fjárhagslega endurskipulagningu í því skyni að bæta bágborna lausafjárstöðu PCC. Veittur var frestur á greiðslu vaxta og afborgana og þá setti PCC SE um 40 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 5,8 milljarða króna, í reksturinn í formi hluthafaláns.

Lífeyrissjóðurinn Gildi, stærsti hluthafi Bakkastakks með 19,4 prósenta hlut, metur eignarhlut sinn í kísilverinu í árslok 2019 á 56 milljónir króna, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi. Hefur virði eignarhlutarins þannig verið fært niður um nærri 500 milljónir miðað við kostnaðarverð hans, eða um liðlega 90 prósent. Þá hefur Stapi lífeyrissjóður lækkað virði hlutafjár síns um 85 prósent og er 15 prósenta hlutur sjóðsins í Bakkastakk nú metinn á 58 milljónir. Sama á við um Almenna lífeyrissjóðinn, sem er sjötti stærsti hluthafi Bakkastakks með um fimm prósenta hlut, en sjóðurinn hefur fært niður verðmæti hlutarins um 75 prósent, samkvæmt ársreikningi síðasta árs.

Birta lífeyrissjóður hefur hins vegar ákveðið að færa hlutafé sitt niður um 100 prósent, að því er fram kemur í skriflegu svari til Markaðarins. Hlutur Birtu í Bakkastakka nemur um ellefu prósentum og var hann áður metinn á um 300 milljónir króna. Þá hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er fimmti stærsti fjárfestirinn í í félaginu, lækkað verðmat sitt á virði hlutafjárins í Bakkastakka um 99 prósent, að því er segir í svari sjóðsins til Markaðarins.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segir að ákvörðun um að færa hlutafé sjóðsins alveg niður í núll hafi komið til vegna þess að rekstur kísilversins sé háður það mikilli óvissu til skemmri tíma. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, tekur í sama streng í samtali við Markaðinn. „Okkur þótti ekki annað verjandi en að vera með varúðarniðurfærslu í ljósi óvissunnar,“ útskýrir hann, en segir að sjóðurinn líti samt enn á verkefnið sem „ágætis fjárfestingu“.

Í svari til Markaðarins segist Festa lífeyrissjóður hafa fært niður hlutafé sitt um 75 prósent en Lífsverk lækkaði verðmatið um 50 prósent. Brú lífeyrissjóður, sjöundi stærsti hluthafi Bakkastakks með um 3,7 prósenta hlut, ákvað hins vegar ekki að gera sérstaka varúðarniðurfærslu á ársreikningi sínum fyrir árið 2019.

Auk þess að leggja kísilverinu PCC til hlutafé á sínum tíma þá fjárfestu íslensku lífeyrissjóðirnir og Íslandsbanki sömuleiðis í víkjandi breytanlegu skuldabréfi að fjárhæð 62,5 milljónir dala, jafnvirði níu milljarða króna á núverandi gengi.

Samkvæmt svari Frjálsa þá var ákveðið að færa niður virði skuldabréfsins um 46 prósent í árslok 2019 – það var áður metið á um 912 milljónir í bókum sjóðsins – en aðrir lífeyrissjóður hafa flestir hverjir, meðal annars Birta og Almenni, ekki fært niður verðmat sitt á skuldabréfinu. Hins vegar eru sjóðirnir ekki að meta inn vaxtagreiðslur af bréfinu, sem ber árlega 8,5 prósent vexti, en sem fyrr segir náðist samkomulag um að veita kísilverinu frest á þeim greiðslum.