Samkvæmt nýrri talningu Samtaka iðnaðarins eru 6.009 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum. Það eru 2,4 prósentum færri íbúðir en voru í byggingu á svæðinu í síðustu talningu SI sem gerð var í mars. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI, Íbúðatalning haust 2019

Talningin sýnir að viðsnúningur er í íbúðabyggingum en á sama tíma í fyrra mældist 18,6 prósenta fjölgun íbúða í byggingu á svæðinu. Fækkun er fyrst og fremst í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins en viðlíka fjöldi af íbúðum er nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í mars sl. samkvæmt talningunni. Niðurstaða talningarinnar er sögð endurspegla þéttingastefnu stærstu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem ríflega helmingur allra íbúða í byggingu í Reykjavík og Kópavogi eru á slíkum reitum.

Samkvæmt talningu SI er fækkunin mest í íbúðum sem eru á fyrstu byggingarstigum, þ.e. að fokheldu. Slíkar íbúðir eru nú 2.520 sem er fækkun um 18,3 prósent frá því í mars-talningu SI. Það er viðsnúningur frá því sem mældist á sama tíma í fyrra en þá var 28 prósenta vöxtur í þessum hluta íbúðabygginga á milli mælinga. Greina mátti viðsnúning í þessum hluta íbúða í byggingu í talningunni í mars en þá nam fækkun þeirra 2,2 prósentum frá því í september á síðasta ári. Í heild hefur íbúðum á þessu byggingarstigi því fækkað um 20,2 prósentum á einu ári.

„Af niðurstöðum talningarinnar má dæma að byggingaraðilar eru að öllum líkindum að bregðast við breyttum horfum í efnahagsmálum. Talningar SI á íbúðum í byggingu hafa undanfarin ár borið með sér að framundan væri vaxandi fjöldi fullbúinna íbúða að fara á markað. Nú virðast hins vegar vera ákveðin vatnaskil í þessum tölum sem benda til þess að fjöldi fullbúinna íbúða kunni að fækka á næstu misserum,“ segir í frétt á veg SI. Endurspeglast þetta í spá SI um fjölda fullbúinna íbúða 2019-2021.

SI spá því að 2.660 íbúðir verði fullgerðar á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum þess á næsta ári. Samkvæmt spánni verða nokkuð færri íbúðir fullgerðar á árinu 2021 eða 2.513 sem er 5,5 prósenta fækkun frá fyrra ári.