Stjórn Arion banka hefur ákveðið að kosningu stjórnar bankans verði þannig háttað að aðalstjórn verði skipuð fimm einstaklingum og varastjórn tveimur. Þannig fækkar um tvo í stjórn bankans, en frá fjármálahruninu hafa stóru viðskiptabankarnir verið með sjö stjórnarmenn hver.

Þetta kemur fram í endanlegum tillögum fyrir aðalfund Arion banka sem verður haldinn um miðjan mars. Er ákvörðunin sögð byggja á tillögu tilnefningarnefndar bankans.

Stjórn Arion banka skipa Brynjólfur Bjarnason formaður, Herdís Dröfn Fjeldsted, Gunnar Sturluson, Liv Fiksdahl, Paul Horner, Renier Lemmens og Steinunn Kristín Þórðardóttir.

Herdís Dröfn hefur hins vegar ekki tekið þátt í störfum stjórnarinnar frá því að hún tók við sem forstjóri Valitor, dótturfélags Arion banka, í nóvember. Því er ljóst að hún og annar sitjandi stjórnarmaður munu víkja úr stjórn bankans á aðalfundinum.