Fjármálaráðuneytið hefur nú birt lista yfir kaupendur í útboði Íslandsbanka en þann 22. mars fór fram sala á á 22,5 prósenta hlut í bankanum.

Meðal kaupenda er faðir fjármálaráðherra, Benedikt Sveinsson, en hann keypti 0,1042 prósenta hlut í bankanum í nafni félagsins Hafsilfurs sem er í hans eigu. Benedikt keypti fyrir um 54 milljónir í útboðinu en einnig á meðal stærri kaupenda er Eignarhaldsfélagið Steinn ehf. sem er í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar í Samherja. Hann keypti fyrir tæpar 300 milljónir í útboðinu.

Guðbjörg M. Matthíasdóttir keypti fyrir tæpan hálfan milljarð en Guðbjörg er aðaleigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum og einn eigenda Morgunblaðsins.

Rafkaup keypti einnig fyrir um 270 milljónir en Sólveig Nanna Hafsteinsdóttir er skráður eigandi. Félagið Íshóll ehf. sem er í eigu fjárfestisins Stefáns Ákasonar keypti einnig fyrir um 270 milljónir í bankanum.

Þá keypti Pálmi Haraldsson, eða Pálmi í Fons, fyrir um 224 milljónir í gegnum fyrirtæki sitt Sólvelli. Jóhann Halldórsson keypti fyrir um 180 milljónir í gegnum félag sitt s8 ehf.

Þórður Már Jóhannesson fjárfestir keypti í gegnum tvö félög, Brekku Retail Ehf. og Fjárfestingarfélagið Brekku, fyrir samtals um 108 milljónir.

Meðal annarra kaupenda eru til dæmis félagið Klambratún sem er í eigu Ólafs Andra Ragnarssonar, Íslensk tónlist ehf. sem er í eigu Sölva Blöndal og Sigurðar Reynis Harðarsonar, og fjárfestirinn Halldór Karl Högnason keypti í gegnum félagið Valshöfða.

Útboðið á hlutum bankans hefur verið harðlega gagnrýnt undanfarna daga og kallað eftir því að listi kaupenda verði birtur.

Fjármálaráðuneytið gerði það síðdegis í dag eftir að Bankasýsla ríkisins sendi þeim listann en í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að mati ráðuneytisins falla upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna hefur ráðherra ákveðið að birta yfirlitið.

Listann er hægt að skoða betur hér.

Fréttin hefur verið uppfærð.