Svo virðist að niðurstaða hafi náðst eftir rannsókn Alríkisviðskiptastofnunar Bandaríkjanna (FTC) á samfélagsmiðlinum Facebook. Niðurstaðan er sú að Facebook greiði 5 milljarða dala sekt, en það er jafnvirði rúmlega 632 milljarða króna.

Frá þessu greina hinir ýmsu erlendu fjölmiðlar og hafa eftir heimildarmönnum sem sagðir eru þekkja vel til málsins. Ef satt reynist er um að ræða hæstu sekt sem FTC hefur lagt á tæknifyrirtæki.

Málið snýst um leka á persónuupplýsingum notenda til breska gagnafyrirtækisins Cambridge Analytica. Talið er að upplýsingar um 87 milljóna notenda Facebook hafi verið notaðar án þeirra vitundar, meðal annars fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016 og í aðdraganda Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar sama ár.

Þrír meðlimir FTC greiddu atkvæði en tveir gegn. Repúblikanar í nefndinni voru fylgjandi sektinni en Demókratar gegn henni. New York Times greinir frá því að Demókratarnir vilji bæta regluverkið enn frekar og leggja aukna ábyrgð á Facebook í persónuverndarmálum.

Facebook var í október á síðasta ári sektað um 500 þúsund pund af persónuverndarstofnun Bretlands. Tillaga FTC mun nú fara til dómsmálaráðherra Bandaríkjanna sem taka mun afstöðu til samþykktar hennar.