Facebook hefur ákveðið að horfa til Íslands sem markaðssvæðis og opna fyrir þjónustu sína hér á landi. Fyrsta fyrirtækið sem Facebook vinnur með hér á landi er stafræna markaðsstofan The Engine, sem er í eigu Pipar\TBWA. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Síðastliðin ár hefur Google litið á Ísland sem markaðssvæði og hefur aðstoðað fyrirtæki við ýmislegt tengt Google Ads herferðum fyrir sína viðskiptavini. Facebook hefur hins vegar ekki litið á Ísland sem markaðssvæði eins og þeir gera með flest önnur lönd í heiminum. Nú verður hins vegar breyting á og þau tímamót að eiga sér stað að Facebook ætlar að líta á Ísland sem markaðssvæði og nota árið 2019 sem prufuár,” segir Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar\TBWA, sem er í nánu sambandi við Axel Strelow hjá Facebook sem mun stýra verkefninu.

Strelow hefur verið svæðisstjóri fyrir norræna markaðinn hjá Facebook og aðstoðar stafrænar auglýsingastofur við að byggja upp og hámarksárangri í gegnum Facebook.

„Strelow starfar með stærstu aðilunum í greininni og hjálpar fyrirtækjum að móta og framkvæma árangursríkar auglýsingaherferðir á Facebook Business Manager. Hann er með aðsetur í höfuðstöðvum Facebook í Dublin og er nú að byrja að starfa með íslenska markaðnum. Stafræni auglýsingamarkaðurinn á Íslandi hefur farið hratt vaxandi að undanförnu og Strelow segist hlakka til að leggja auglýsendum á Íslandi lið við að ná árangri í auglýsingaherferðum á Facebook Business Manager,” segir Guðmundur. 

Axel Strelow verður einn af aðal fyrirlesurunum á markaðsráðstefnunni Reykjavik Internet Marketing Conference (RIMC) sem haldin verður 5. apríl nk. Guðmundur segir að það verði fróðlegt að sjá hvað hann hefur fram að færa á ráðstefnunni sem markaðsfólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara og jafnvel muni koma fram áhugaverð tölfræði fram um íslenska markaðinn.