Samfélagsmiðlarisinn Facebook réði sérstaka verktaka til þess að hlusta á raddskilaboð sem notendur sendu sín á milli í einkasamtölum á Messenger.

Techcrunch greinir frá því að írsk persónuverndaryfirvöld rannsaki nú málið og hafi beðið fyrirtækið um nákvæmar upplýsingar um hvað fólst í hlustuninni. Hvergi er minnst á í notendaskilmálum né persónuverndarstefnu Facebook að starfsmenn né verktakar gætu hlustað á skilaboðin.

Samkvæmtfrétt Bloomberg hlustuðu verktakarnir á skilaboðin og skrifuðu þau upp en sáu ekki nöfn þátttakenda í þeim samtölum sem um ræðir. Þetta var gert til þess að bera saman það sem verktaki heyrði og sjálfvirka uppskrift forritsins í því skyni að bæta þann eiginleika Messenger.

Facebook gaf í kjölfarið út yfirlýsingu þar sem fyrirtækið sagði að þessu hafi verið hætt fyrr í ágústmánuði. Áður höfðu Apple og Google hætt að hlusta á samtöl við stafræna aðstoðarmenn fyrirtækisins og Amazon gert notendum kleift að loka á þann möguleika.