Rapyd (áður Korta) hefur breytt greiðsluskilmálum á þá vegu að fyrirtæki fá seinna greitt en áður. Fyrir breytinguna, sem tilkynnt var viðskiptavinum hinn 22. júní, fékk viðskiptavinur, sem vill ekki láta nafn síns getið, sölu dagsins greidda um morguninn næsta dag en nú berst hún við lok vinnudagsins.

Heimildarmenn Markaðarins, sem koma úr nokkrum áttum, segja að þessar tafir komi sér illa fyrir lítil fyrirtæki sem treysti á að nýta umrædda fjármuni til að standa straum af kostnaði. Svör frá Rapyd vegna málsins höfðu ekki borist við vinnslu fréttarinnar. Í bréfi til viðskiptavina sagði Rapyd að breytingin hefði ekki í för með sér mikla röskun á starfsemi viðskiptavina, að því er heimildir herma. Rapyd keypti Valitor af Arion banka á dögunum.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist ekki þekkja til atviksins sem um ræðir. Aftur á móti hafi verið „urgur“ í hans fólki með einhliða skilmálabreytingar hjá færsluhirðum í fyrra þegar Covid-19 heimsfaraldurinn hófst. Færsluhirðar hafi skyldum að gegna gagnvart þeim sem selji vöru eða þjónustu og kortafyrirtækjunum. Slík fyrirtæki þurfi að vera undir það búin að viðskiptavinir fari fram á endurgreiðslu við kortafyrirtæki til dæmis ef þjónusta sé ekki innt af hendi af einhverjum ástæðum.

„Við teljum óásættanlegt að kortafyrirtækin taki upp á því einhliða að halda eftir hluta af greiðslum sem gerðar eru þegar þjónusta hefur verið veitt.“

„Við teljum óásættanlegt að kortafyrirtækin taki upp á því einhliða að halda eftir hluta af greiðslum sem gerðar eru þegar þjónusta hefur verið veitt. Það mætti líkja þessu við að kaupa pott af mjólk í matvöruverslun og greiða með korti en færsluhirðirinn lætur ekki alla greiðsluna af hendi fyrr en eftir fjórar vikur,“ segir Jóhannes Þór.

Hann segir eðlilegt að færsluhirðar taki til hliðar hluta af fjárhæðinni þegar greitt er fyrirfram, sá möguleiki sé fyrir hendi að af viðskiptunum verði ekki og viðskiptavinir krefjist endurgreiðslu. „En þegar fólk mætir á hótel, gistir í tvær nætur og greiðir fyrir í posa með pin-númeri þá er augljóslega búið að afhenda vöruna. Færsluhirðar sjá þegar pin-númer hefur verið slegið inn og því ætti ekki að vera neitt vandamál til staðar,“ bætir hann við.