Í samráðsgátt stjórnvalda liggur nú fyrir áformaskjal um rýni á erlendum fjárfestingum vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við Markaðinn að ástæðan fyrir því að áformin séu lögð fram sé að Ísland sé með úrelta löggjöf þegar kemur að erlendum fjárfestingum.

„Staðreyndin er sú að öll okkar nágrannalönd hafa verið að setja lagaramma um rýni erlendra fjárfestinga. Þannig að Ísland sker sig úr hvað þetta varðar þar sem við erum með löggjöf frá 1991,“ segir Katrín og bætir við að sú löggjöf gefi stjórnvöldum heimild til að stöðva erlenda fjárfestingu en skilyrðin fyrir því séu ekki nægjanlega skýr.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Fréttablaðið/Ernir

„Þetta eru áform sem sett hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda þannig að það er ekki komið fram neitt heildstætt frumvarp. Við viljum fá athugasemdir og viðbrögð til að hægt sé að vinna þetta sem best.“

Samtök atvinnulífsins hafa skilað inn umsögn um lagasetningu um rýni á erlendum fjárfestingum vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Í umsögninni segir að samtökin fagni því að verið sé að endurskoða löggjöfina en gera athugasemdir við áformin í núverandi mynd. Að sögn samtakanna virðist sem svo að gengið sé lengra en í öðrum löndum þegar kemur að sambærilegri löggjöf.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, bendir á í samtali við Markaðinn að fá ríki séu með meiri hömlur hvað varðar beina fjárfestingu erlendra aðila en Ísland.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Enda mælist erlend fjárfesting lítil hér á landi og hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Það er ekki jákvæð þróun, enda ætti það að vera sérstakt markmið þjóða að laða til sín erlenda fjárfestingu sem eykur fjölbreytni atvinnulífsins og áhættudreifingu meðal annarra kosta,“ segir Anna Hrefna og bætir við að ekki sé ljóst hvaða áhrif lagasetningin geti haft á möguleika og vilja erlendra fjárfesta til að taka þátt á íslenskum hlutabréfamarkaði.

„Við stöndum nú frammi fyrir einstöku tækifæri til að auka erlenda þátttöku og þar með uppfærslu í flokk nýmarkaðsríkja hjá FTSE. Nasdaq Iceland hefur áætlað að þessi breyting gæti þýtt innflæði upp á 50 milljarða króna. Við viljum ekki senda þau skilaboð að slík fjárfesting inn í íslenskt atvinnulíf sé óvelkomin.“

„Það er vissulega vandmeðfarið að finna jafnvægi í þessu. Erlend fjárfesting getur verið af hinu góða og með þessu er alls ekki verið að segja að hún sé slæm að neinu leyti." - Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Katrín bætir við að mikilvægt sé að huga að þjóðaröryggi en á sama tíma sé mikilvægt að efla erlenda fjárfestingu á sumum sviðum.

„Það er vissulega vandmeðfarið að finna jafnvægi í þessu. Erlend fjárfesting getur verið af hinu góða og með þessu er alls ekki verið að segja að hún sé slæm að neinu leyti. Frekar er hugsunin sú að íslensk stjórnvöld fái tæki og tól til þess að rýna erlendar fjárfestingar með fullnægjandi hætti þannig að við séum örugg um það, einkum þegar kemur að innviðum.“

„Það er alveg ljóst að þær kvaðir sem lagðar eru til munu hafa fælandi áhrif á erlenda fjárfesta, sérstaklega ef til staðar verða mjög víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar og synjunar fjárfestinga sem gætu byggst á geðþóttaákvörðunum frekar en skýrum, vel rökstuddum og fyrirfram afmörkuðum mælikvörðum.“ - Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Anna Hrefna gagnrýnir jafnframt að svo virðist sem við ætlum að ganga lengra en önnur ríki sem hafa nýlega innleitt sambærilega löggjöf án rökstuðnings og þrátt fyrir að afar takmörkuð reynsla sé komin á löggjöfina í öðrum löndum.

„Það er alveg ljóst að þær kvaðir sem lagðar eru til munu hafa fælandi áhrif á erlenda fjárfesta, sérstaklega ef til staðar verða mjög víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar og synjunar fjárfestinga sem gætu byggst á geðþóttaákvörðunum frekar en skýrum, vel rökstuddum og fyrirfram afmörkuðum mælikvörðum.“

Katrín bætir við að það sé verðugt verkefni að greiða leið fyrir erlenda fjárfestingu hér á landi.

„Ég held utan um þessa vinnu sem við erum í núna sem formaður Þjóðaröryggisráðs og öryggishagsmunir verða að vera til staðar. En að sjálfsögðu eigum við að velta fyrir okkur hvort það séu óþarfa hindranir þegar kemur að erlendri fjárfestingu. Það er á verksviði viðskiptaráðherra en raunar hafa nokkur ráðuneyti komið að þessari vinnu, þar á meðal menningar- og viðskiptaráðuneyti.“

Anna Hrefna segir að gagnrýni á þessi áform stjórnvalda þýði alls ekki að samtökin vilji ekki sjá löggjöf um erlenda fjárfestingu út frá sjónarhóli þjóðaröryggis.

„Þvert á móti en þessi áform eru einfaldlega ótímabær í ljósi þeirra augljósu vankanta sem ég nefndi. Yfirvöld þurfa að tryggja að sú löggjöf sem lögð er fram sé í samræmi við aðra löggjöf, stefnu yfirvalda í málaflokknum og að hún fórni ekki meiri hagsmunum fyrir minni með því að ganga mun lengra en þörf krefur.“

Katrín segir að gott sé að horfa til nágrannalandanna í þessu samhengi og finnst eðlilegt að beðið sé með gagnrýni þangað til eftir að endanlegt frumvarp sé komið fram.

„Við sjáum það alls staðar í kringum okkur að þjóðir eru að leita leiða til að rýna erlenda fjárfestingu og velja til þess ólíkar leiðir. Við erum að sjá erlenda aðila í löndunum í kringum okkur fjárfesta í innviðum sem hafa gildi fyrir þjóðaröryggi og almannaöryggi. Þannig að það er nauðsynlegt fyrir okkur að endurskoða okkar löggjöf sem er úrelt miðað við löggjöf annarra ríkja og kröfur samtímans.“