Bresk samkeppnisyfirvöld hafa framlengt frest sinn til þess að rannsaka risasamruna bresku matvörukeðjanna Sainsbury og Asda um átta vikur. Er ástæðan fyrir frestuninni sögð umfang og eðli samrunans.

Í stuttri tilkynningu sem breska samkeppnisstofnunin, CMA, sendi frá sér fyrr í dag tók hún jafnframt fram að hún þyrfti nauðsynlega á meiri tíma að halda til þess að taka til skoðunar athugasemdir fyrirtækjanna tveggja, Sainsbury og Asda, sem og keppinauta þeirra.

Bresk samkeppnisyfirvöld hafa nú frest til 30. apríl næstkomandi til þess að taka afstöðu til kaupanna en þó er talið að bráðabirgðaniðurstaða stofnunarinnar muni liggja fyrir innan tíðar.

Forsvarsmenn Sainsbury, sem er næststærsta matvörukeðja Bretlands, tilkynntu í lok apríl í fyrra um áform sín um að taka Asda, sem er í eigu bandaríska verslanarisans Walmart, yfir. Sameinað félag yrði stærsta matvörukeðja landsins með um þriðjungshlutdeild á markaðinum. Markaðsvirði þess, að teknu tilliti til skulda, yrði um 15 milljarðar punda eða sem jafngildir um 2.080 milljörðum króna.

Matvörukeðjurnar hafa sagt að aukin stærðarhagkvæmni, í kjölfar samrunans, muni leiða til lægra vöruverðs til neytenda. Greinendur telja ekki ósennilegt að yfirvöld muni setja samrunanum þau skilyrði að sameinað félag selji tilteknar verslanir og veiki þannig markaðsstöðu sína.