Farþegar sem flugu með WOW Air til og frá Montréal í Kanada í mars í fyrra fá ekki greiddar bætur vegna seinkunar. Seinkun varð á því að hleypa farþegum frá borði við komu til Montréal vegna þess að maurar fundust um borð og svo aftur á brottför vélarinnar frá Montréal.

Fram kemur í úrskurðum Samgöngustofu að við komu til Montréal hafi kanadísk yfirvöld tekin vélina í sína vörslu og farþegum hafi ekki verið hleypt frá borði fyrr en rúmum tveimur klukkustundum eftir að þau lentu. Fyrir hafði vélin lagt af stað frá Íslandi um einni klukkustund á eftir áætlun og var því alls um þriggja klukkustunda seinkun á komu farþeganna til Montréal.

Vélin var í haldi kanadískra yfirvalda í rúmar 20 klukkustundir og var því um 22 klukkustunda seinkun á för farþega sem áttu bókað flug með WOW frá Montréal til Keflavíkur sama dag.

Fram kemur í úrskurðum Samgöngustofu hvað varðar flug til og frá Montréal að þau meti svo að það teljist til óviðráðanlegra aðstæðna þegar kanadísk yfirvöld yfirtóku vélina við komu og höfðu hana í haldi sínu í 20 klukkustundir. Því sé flugfélagið ekki skaðabótaskylt og er kröfum farþega því hafnað.

Úrskurði Samgöngustofu er hægt að lesa hér og hér.