Stjórn Glitnis HoldCo, eignarhaldsfélags sem var stofnað eftir að slitabú Glitnis lauk nauðasamningum í árslok 2015, leggur til við aðalfund félagsins í næstu viku að laun sín haldist óbreytt í ár frá síðasta ári.

Verði tillaga stjórnarinnar, sem Markaðurinn hefur undir höndum, samþykkt mun Mike Wheeler, stjórnarformaður eignarhaldsfélagsins, fá greiddar 30 þúsund evrur, jafnvirði um 4,2 milljóna króna, fyrir störf sín á þessu ári, að því tilskildu að þau útheimti að hámarki fimm heila vinnudaga.

Þá munu stjórnarmennirnir Tom Grøndahl og Steen Parsholt fá hvor um sig greiddar 20 þúsund evrur, jafnvirði 2,8 milljóna króna, í laun í ár fyrir að hámarki fjóra vinnudaga.

Starfi umræddir þrír stjórnarmenn umfram það fær hver þeirra greiddar fimm þúsund evrur, um 690 þúsund krónur, til viðbótar á dag.

Fram kemur í ársreikningi Glitnis HoldCo fyrir síðasta ár, sem sendur var hluthöfum eignarhaldsfélagsins fyrr í mánuðinum og Markaðurinn hefur undir höndum, að eignir félagsins hafi numið 4,04 milljónum evra, sem jafngildir um 560 milljónum króna, í lok síðasta árs en þar af var reiðufé félagsins 3,49 milljónir evra. Til samanburðar átti Glitnir HoldCo eignir upp á 4,75 milljónir evra í lok árs 2018.

Stjórnunarkostnaður eignarhaldsfélagsins var 244 þúsund evrur á síðasta ári og dróst verulega saman frá árinu 2018 þegar hann nam alls 1.876 þúsund evrum.