Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að ársreikningur Reykjavíkurborgar sýni að núverandi meirihlutasamstarf fjögurra flokka sé kostnaðarsamt. Ekki sjái fyrir endann á skuldasöfnun borgarinnar og engin tilraun sé gerð til að ná jafnvægi í rekstri. Á sama tíma séu fyrirtæki í borginni í vanda.

„Heildarskuldir Reykjavíkurborgar hafa aldrei verið hærri en nú eru þær komnar í 386 milljarða króna en voru á síðasta rekstrarári 345 milljarðar. Skuldir samstæðu borgarinnar jukust þannig um 41 milljarð króna á síðasta ári, eða sem nemur 3.400 milljónum í hverjum einasta mánuði,“ segir Eyþór í tilkynningu.

Oddvitinn segir að vandi borgarinnar snúi fyrst og fremst að útjöldum en ekki tekjum. „Reykjavíkurborg er með skatta í botni og glímir því ekki við tekjuvanda, enda hafa allir helstu tekjuliðir hennar hækkað um því sem nemur heilum sex milljörðum á síðasta ári þrátt fyrir dýpstu kreppu lýðveldissögunnar. Vandi borgarinnar er því fyrst og fremst útgjaldavandi en því miður sér ekki fyrir endann á honum í áætlunum borgarstjóra,“ segir hann.

„Reykjavíkurborg er með skatta í botni og glímir því ekki við tekjuvanda“

Skuldasöfnun í mesta tekjugóðæri Íslandssögunnar

Eyþór segir að vandinn sé að meirihlutaflokkarnir stuðluðu að skuldasöfnun borgarinnar í mesta tekjugóðæri Íslandssögunnar en hafi ekki hirt um að hagræða þrátt fyrir fyrirheit um annað í meirihlutasáttmálanum.

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reyndu ítrekað að benda á þá staðreynd þegar borgin var í miklum færum til þess að greiða niður skuldir en á það var ekki hlustað,“ segir hann.

Eyþór segir að réttast væri að snúa vörn í sókn með fjölgun hagstæðra lóða, sölu á ónauðsynlegum eignum, eins og Malbikunarstöðina Höfða, og nútímavæðingu rekstrar borgarinnar.

„Það er hægt ná jafnvægi í rekstri Reykjavíkurborgar með slíkum viðsnúningi sem mun þá jafnframt skila sér til bæði fyrirtækja og heimila,“ segir hann.