Fyrirtæki Eyþórs heitir Ramses og er eignarhaldsfélag sem fer með hluti í öðrum fyrirtækjum. Eitt þeirra er ferðaþjónustufyrirtækið Special Tours. „Covid hefur auðvitað sett mikla pressu á ferðaþjónustuna og þetta hefur verið mjög krefjandi. Nú vonar maður að það hilli undir að við komumst út úr Covid í vor og fram undan að heimurinn opnist á ný. Eitt af því sem ég er að horfa á varðandi fyrirtækið er einmitt að takast á við að heimurinn opnist aftur,“ segir Eyþór í samtali við Markaðinn.

„Ég hef alltaf verið með marga hatta. Ég hef verið í tónlist og Todmobile spilaði á þessu ári í Hörpu fyrir húsfylli. Ég hef mjög gaman af að hafa mörg járn í eldinum en auðvitað getur það verið dálítið mikið álag og með því að segja nei við einu er maður sennilega að segja já við öðru.

Ég mun sitja í borgarstjórn fram í júní og síðan er ég frjáls og fæ meiri tíma og næði til að sinna mér og mínu. Það er mikilvægt að vera ekki í of mörgu í einu.“

En hefur ekki verið niðurdrepandi að vera í minnihluta í borgarstjórn?

„Ég myndi nú ekki orða það þannig. Ég myndi segja að það sé krefjandi að vera í minnihluta. Ég held líka að það sé flókið að vera í meirihluta eins og er hér í borginni, með fjóra mjög ólíka flokka. Að því leyti er léttara að vera í minnihluta, að það er hægt að gagnrýna og ábyrgðin er ekki sú sama. Á móti kemur að maður fær sínu ekki framgengt og getur ekki komið málum í verk. Ég er hins vegar þakklátur fyrir að hafa fengið að vera í minnihluta og hafa fengið að benda á hluti sem fólk hefur kannski ekki áttað sig á. Það er lýðræðinu nauðsynlegt að aðhald sé veitt.

Ég þekki það að vera í minnihluta og meirihluta. Ég var fjögur ár í minnihluta og síðan fjögur ár með hreinan meirihluta í Árborg og ég held að ef ég hefði strax komist í meirihluta hefðum við gert margt vitlaust, en það var góður skóli að vera í minnihluta. Ég held að öllum sé hollt að kynnast því að vera í minnihluta.“

Eyþór segist vera sáttur við sína ákvörðun um að hætta í stjórnmálum. „Lífið er dýrmætt. Kosningabaráttan fram undan er mjög löng en nú er ég frjáls og get sinnt mínu. Ferðaþjónustan er mjög krefjandi en þar róa allir í sömu átt,“ segir Eyþór Arnalds og horfir björtum augum til framtíðarinnar.