Fjárfestingafélagið Eyrir Invest, sem er meðal annars stærsti hluthafi Marels með nærri fjórðungshlut, hagnaðist um 327 milljónir evra á árinu 2019, jafnvirði tæplega 50 milljarða íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag. Hagnaður félagsins tífaldaðist þannig frá fyrra ári þegar hann var rúmlega 32 milljónir evra.

Hinn mikli hagnaður fjárfestingafélagsins kemur til vegna liðlega sextíu prósenta hækkunar á hlutabréfaverði Marels á síðasta ári. Auk eignarhlutarins í Marel, sem er í dag metinn á um 138 milljarða króna, á félagið meðal annars tæplega helmingshlut í Eyri Sprotum, sem fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum. Heildareignir Eyris Invest námu um 915 milljónum evra í árslok 2019 – þar af var hluturinn í Marel bókfærður á 858 milljónir evra – og er eiginfjárhlutfall félagsins um 75 prósent, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi.

Stærstu eigendur Eyris Invest eru feðgarnir Þórður Magnússon, stjórnarformaður félagsins, og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, en þeir fara samanlagt með nærri 39 prósenta hlut. Aðrir helstu hluthafar Eyris Invest, sem var stofnað árið 2000, eru Landsbankinn, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verslunarmanna.

Fram kemur í skýrslu stjórnar Eyris Invest að félagið hafi í fyrra samið við bandaríska fjárfestingabankann Citibank um fjármögnun á hluta af eignum þess. Kjörin sem fjárfestingafélaginu bauðst hafi verið mun betri en eru í boði á innlendum fjármagnsmarkaði auk þess sem geta Citibank til að styðja við frekari fjárfestingar Eyris Invest sé mikil. Með lántökunni hafi því verið dregið úr endurfjármögnunaráhættu félagsins og geta til frekari fjárfestingar aukist.

Nýjar lántökur Eyris Invest í fyrra námu 73 milljónum evra en á sama tíma voru afborganir eldra lána að fjárhæð rúmlega 44 milljónir evra. Hreinar lántökur fjárfestingafélagsins námu því um 29 milljónum evra á árinu. Samtals námu vaxtaberandi skuldir félagsins 226 milljónum evra í árslok 2019.

Eyrir Invest seldi í fyrra hlut sinn í níu óskráðum sprotafélögum ásamt lánveitingum til sömu félaga til nýs dótturfélags síns, Eyrir Ventures, gegn útgáfu breytanlegs skuldabréfs og kröfu. Í árslok nam fjárhæð víkjandi skuldabréfsins og ógreidds annars söluverðs 23,7 milljónum evra. Fram kemur í ársreikningnum að breyta eigi heildarkröfunni í hlutafé í Eyri Ventures.

Eyrir Invest hefur verið stærsti hluthafi Marels allt frá 2005 en í júní í fyrra voru hlutabréf félagsins tekin til viðskipta í kauphöllinni í Amsterdam og samhliða skráningunni fór fram hlutafjárútboð á 100 milljónum nýrra hluta, sem voru seldir fyrir um 50 milljarða króna, eða um 15 prósent af hlutafé Marels.

Umsvif erlendra sjóða í hluthafahópi Marels, sem jukust mjög við útboðið og skráninguna í Hollandi, hafa margfaldast á síðustu misserum. Samanlagður eignarhlutur slíkra sjóða er í dag farinn að nálgast nærri 40 prósent en til samanburðar nam hlutur þeirra aðeins um þremur prósentum í ársbyrjun 2018. Á sama tíma hafa íslenskir lífeyris- og verðbréfasjóðir minnkað verulega eignarhlut sinn í Marel.

Stærstu erlendu hluthafar Marels eru í dag bandaríska fyrirtækið MSD Partners, sem kom fyrst inn í hluthafahóp Marels árið 2017, Capital Group og evrópski vogunarsjóðurinn Teleios Capital.

Gengi hlutabréfa Marels hefur hækkað um rúmlega 16 prósent frá áramótum. Markaðsvirði félagsins er í dag um 550 milljarðar króna.