Eyrir Ventures, sprotafjárfestingafélag Eyris Invest, fjárfesti nýverið í íslenska sprotafyrirtækinu Atmonia sem vinnur að þróun byltingarkennds ferlis til umhverfisvænnar áburðarframleiðslu á smáskala. Í kjölfarið tók Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Eyris Invest, sæti í stjórn fyrirtækisins.

Eyrir Ventures fjárfesti í breytanlegu skuldabréfi Atmonia fyrir um fjörutíu milljónir króna en Örn segir í samtali við Markaðinn að félagið geri ráð fyrir að taka þátt í frekari fjármögnun sprotafyrirtækisins síðar meir.

Auk Arnar hefur Viktoría Valdimarsdóttir, ráðgjafi og einn stofnenda Ábyrgra lausna, sest í stjórn Atmonia en fyrir í stjórn situr stjórnarformaðurinn Egill Skúlason, prófessor í efnaverkfræði við Háskóla Íslands og einn stofnenda sprotafyrirtækisins. Stendur rannsóknarhópur hans á bak við fyrirtækið.

Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Eyris Invest.

Atmonia þróar lítið tæki, á stærð við þvottavél, sem tekur inn loft, vatn og rafmagn og framleiðir nituráburð. Gerir umrætt tæki bændum kleift að framleiða sinn eigin köfnunarefnisáburð og minnka kolefnisspor sitt í leiðinni.

Egill var í lok árs 2018 stærsti hluthafi Atmonia með ríflega helmingshlut, samkvæmt ársreikningi sprotafyrirtækisins, en aðrir hluthafar eru meðal annars Helga Dögg Flosadóttir, doktor í eðlisefnafræði og einn stofnenda fyrirtækisins, Háskóli Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.