Penninn Eymundsson mun um komandi mánaðamót opna fjögur ný kaffihús í verslunum sínum, eftir að Te og Kaffi yfirgefur bókabúðirnar. Te og kaffi hefur um árabil rekið kaffihús í verslunum Eymundsson en fyrirtækin tvö ákváðu nýverið að endurnýja ekki samstarfssamning sinn.

Greint var frá því í síðustu viku að samningar hefðu ekki náðst og að Te og kaffi myndi í framhaldinu yfirgefa verslanir Eymundsson. Forsendubrestur var sagður ástæða samningsslitanna. Ingimar Jónsson, forstjóri Pennans Eymundssonar, segir þessar breytingar marka þáttaskil hjá fyrirtækinu.

Alls átta kaffihús í eigu fyrirtækisins

„Penninn Eymundsson verður því með átta kaffihús í rekstri næstu mánaðamót þegar við tökum við rekstrinum í verslunum okkar að Laugavegi, Austurstræti, Skólavörðustíg og við Hafnarstræti á Akureyri,“ segir Ingimar í samtali við Fréttablaðið.

Ingimar bendir á að fyrirtækið reki nú þegar kaffihús í Vestmannaeyjum, Keflavík, Húsavík og í Mjódd í Reykjavík og tekur fram að um næstu mánaðamót verði þau öll að fullu í eigu og rekstri fyrirtækisins.

Spáir tekjuaukningu

„Nú getum við sameinað kaffihúsin í rekstri þessara verslana í þeim tilgangi að ná fram hagræðingu í rekstri, markaðsmálum og starfsmannahaldi,“ segir Ingimar og bætir við að hann búist við tekjuaukningu hjá téðum verslunum.

Ingimar segir ekki ólíklegt að fyrirtækið muni fjölga kaffihúsum sínum á næstu mánuðum. Penninn Eymundsson rekur alls sextán bókabúðir á Íslandi.