Eymdarvísitalan stendur í rúmum tólf stigum og er töluvert frá því þegar hún náði 20 stigum eftir fjármálahrunið 2008. Vísitalan hefur hækkað um þriðjung frá upphafi síðasta árs eða um það leyti sem kórónaveiran barst til lands, samkvæmt greiningu Viðskiptaráðs.

Vísitalan gefur bæði vísbendingu um efnahagslega stöðu þegnanna og hvernig tekst til við hagstjórnina, og er fengin með að leggja saman verðbólgu og atvinnuleysi. Eftir því sem vísitalan er hærri, því meiri er eymdin, en það gefur augaleið að mikil verðbólga ásamt háu atvinnuleysi gefur til kynna slæma stöðu á vinnumarkaði ásamt því að verðbólga hefur margþætt neikvæð áhrif og rýrir tekjur fólks.

„Það er ljóst að verðbólga og atvinnuleysi segja ekki nema takmarkaða sögu um hagsæld, hagstjórn o.s.frv. Í gegnum tíðina hafa því orðið til ýmis afbrigði af vísitölunni til að fanga betur þá þætti sem hafa áhrif á hagsæld og stöðu efnahagslífsins. Sem dæmi hefur stýrivöxtum og hagvexti á mann verið bætt við. Stýrivextir hafa bein áhrif á lánskjör landsmanna en lánskjörin varða stóran hluta þjóðarinnar og vega jafnan þungt þar sem oft og tíðum fer stór hluti tekna fólks og fyrirtækja í vaxtagreiðslur af lánum. Þá hefur hagvöxtur á mann einnig áhrif og dregur úr eymdinni. Fyrir álitamál um hvaða þætti vísitalan skuli innihalda er einnig óljóst hvert vægi þáttanna er. Til að mynda má færa rök fyrir því að aukið atvinnuleysis valdi meiri eymd en samsvarandi hækkun verðlags,“ segir í greiningunni.

Viðskiptaráð hefur sett upp líkan sem gerir hverjum sem er kleift að stilla upp eymdarvísitölunni eftir sínu höfði.