Evrópsk og asísk hlutabréf hríðféllu í verði í morgun, á fyrsta viðskiptadegi vikunnar, þrátt fyrir tilraunir seðlabanka víða um heim til þess að róa fjárfesta sem hafa vaxandi áhyggjur af áhrifum kórónaveirunnar á heimshagkerfið.

Breska hlutabréfavísitalan FTSE 100 féll um 4,7 prósent við opnun markaða í morgun og hefur vísitalan þannig lækkað um meira en þrjátíu prósent það sem af er ári. Dax-vísitalan í Þýskalandi og franska vísitalan Cac 40 fóru auk þess niður um 4,6 prósent í morgun.

Miklar lækkanir voru einnig á hlutabréfamörkuðum í Asíu í nótt. Þannig féllu Hang Seng, hlutabréfavísitala í Hong Kong, og CSI 300 í Kína báðar um 4,3 prósent. Í Ástralíu hríðféll vísitalan S&P/ASX 200 um allt að 9,7 prósent.

Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði í gærkvöldi stýrivexti um eitt prósentustig - niður í 0 til 0,25 prósent - og sagðist auk þess ætla að grípa til viðamikilla aðgerða í því augnamiði að styðja við fjármálamarkaði landsins. Bankinn hyggst meðal annars kaupa skuldabréf fyrir að minnsta kosti 700 milljarða dala.

Tilkynningin dugði hins vegar ekki til þess að róa fjárfesta en til marks um það féllu framvirkir samningar um S&P 500 hlutabréfavísitöluna um allt fimm prósent í verði í gærkvöldi. Bendir það til þess að bandarískir markaðir muni lækka verulega þegar þeir opna síðar í dag.

Miklar sveiflur hafa einkennt alþjóðlega hlutabréfamarkaði síðustu vikur eftir því sem kórónaveiran hefur breiðst út um heiminn. Bandarískar hlutabréfavísitölur lækkuðu sem dæmi um nærri tíu prósent á fimmtudag og var það mesta dagslækkun á þarlendum hlutabréfamarkaði frá svarta mánudeginum í október árið 1987.