Evrópskar hlutabréfavísitölur lækkuðu nokkuð þegar markaðir opnuðu í morgun eftir að kínversk stjórnvöld vöruðu við því að útbreiðsla kórónaveirunnar gæti aukist enn frekar. Fjárfestar hafa miklar áhyggjur af áhrifum veirunnar, meðal annars á heimshagkerfið, að sögn greinenda.

Stoxx 600-vísitalan féll um 1,7 prósent í morgun, FTSE 100-vísitalan fór niður um 1,6 prósent og þá lækkaði þýska Dax-vísitalan um 1,7 prósent, svo dæmi séu tekin, en það voru einkum hlutabréf fyrirtækja í ferðaþjónustu, námustarfsemi og lúxusvörum sem féllu hvað mest í verði. Þannig lækkuðu bréf í Burberry um 5,5 prósent í verði í morgun, að því er segir í frétt Financial Times, en breska tískuvörumerkið á mikilla hagsmuna að gæta á kínverskum markaði.

Olíuverð lækkaði jafnframt um 2,2 prósent og fór verðið á Brent-olíu niður í 59,35 dali á tunnu. Á sama tíma hafa öruggari fjárfestingarkostir á borð við gull og ríkisskuldabréf hækkað lítillega í verði. Sem dæmi lækkaði ávöxtunarkrafan á tíu ára bandarísk ríkisskuldabréf, sem lækkar þegar verð hækkar, um fimm punkta og hefur hún ekki verið lægri frá því í október í fyrra.