Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair Group, keypti í morgun í flugfélaginu fyrir 9,9 milljónir króna. Hún keypti sex milljónir hluta á genginu 1,65. Kaupin fóru fram í gegnum félagið Mánaþing sem stofnað var á síðasta ári. Eftir kaupin á félagið 23,250 milljónir hluta. Markaðsvirði þeirra er 38,4 milljónir króna. Þetta kemur fram í flöggun til Kauphallarinnar.

Upplýst var um það á föstudaginn að Eva Sóley hafi látið af störfum eftir að hafa sinnt starfinu í rúmlega tvö ár. „Ég er ákaf­lega stolt af því að hafa fengið tæki­færi til að vinna fyr­ir þetta ein­staka fé­lag með framúrsk­ar­andi stjórn­endat­eymi og starfs­fólki á þess­um for­dæma­laus­um tím­um sem fé­lagið hef­ur gengið í gegn­um á meðan ég hef gegnt hlut­verki fram­kvæmda­stjóra fjár­mála­sviðs. Ég hef ákveðið að skipta um takt á þess­um tíma­punkti og hef því tekið þá erfiðu ákvörðun að segja skilið við fé­lagið. Ég óska sam­starfs­fólki mínu og fé­lag­inu alls hins besta og hlakka til að fylgj­ast með fé­lag­inu áfram sem stolt­ur hlut­hafi,“ var haft eft­ir henni í tilkynningu.

Eva Sóley hefur upplýst að hún vilji einbeita sér að eigin fjárfestingum og eigi von á sínu þriðja barni í haust. „Það verkefni verður í forgangi hjá mér næstu misserin,“ sagði hún á Facebook.