Eva Cederbalk, sem hefur gegnt stjórnarformennsku í Arion banka frá árinu 2017, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu á aðalfundi bankans sem fram fer næsta miðvikudag. Tilnefningarnefnd bankans leggur til að Brynjólfur Bjarnason verði kjörinn formaður stjórnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem bankinn sendi Kauphöllinni í kvöld.

Sjö manns hafa boðið sig fram til stjórnar Arion banka en frestur til þess að skila inn framboðum rann út klukkan fjögur síðdegis í dag.

Í framboði eru þau Benedikt Gíslason, Brynjólfur Bjarnason, Herdís Dröfn Fjeldsted, Liv Fiksdahl, Paul Richard Horner, Renier Lemmens og Steinunn Kristín Þórðardóttir. Leggur tilnefningarnefnd til að þau verði öll kjörin í stjórn bankans en þau Fiksdahl, Horner og Lemmens koma ný inn í stjórnina.

Auk Cederbalk gefur Måns Höglund ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Haft er eftir Cederbalk í tilkynnningunni að þegar hún hafi tekið sæti í stjórn bankans hafi verið eitt helsta verkefnið að skrá hann á markað.

„Því verki lauk farsællega síðastliðið sumar þegar bankinn var skráður í kauphöll bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Ég er stolt af því að hafa verið þátttakandi í þeirri mikilvægu vegferð,“ segir hún. 

Um flókið og krefjandi verkefni hafi verið að ræða sem hafi krafist mikils af öllum sem að komu, stjórn og stjórnendum bankans. 

„Með þetta í huga, en einnig sökum anna vegna annarra starfa og ferðalaga sem þeim fylgja sem og persónulegra aðstæðna, tók ég þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér til áframhaldandi setu og formennsku í stjórn Arion banka og upplýsti tilnefningarnefnd um hana,“ segir Eva Cederbalk.

Þá hafa þau Ólafur Örn Svansson, Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir og Þröstur Ríkharðsson boðið sig fram í varastjórn Arion banka.

Eins og áður sagði leggur tilnefningarnefndin til að Brynjólfur Bjarnason verði kjörinn formaður stjórnar og jafnframt að Herdís Dröfn verði kjörin varaformaður.

Á aðalfundinum verður enn fremur kosið um tvö sæti í tilnefningarnefnd Arion banka og hafa þeir Christopher Felix Johannes Guth og Sam Taylor gefið kost á sér til setu í hana. Stjórn bankans mun meta hæði frambjóðenda til tilnefningarnefndarinnar og verður niðurstaða þess mats birt á vef bankans eigi síðar en klukkan fjögur síðdegis á mánudag.