Neytendur

Þetta eru vinsælustu jólagjafirnar í ár

Fulltrúar Elko og Heimkaupa segja að línur séu farnar að skýrast hvað áhuga landsmanna á jólagjöfum áhrærir. Sous Vide gefur lítið eftir en þráðlaus heyrnartól seljast eins og heitar lummur. Skrautlegar vatnsflöskur skjótast óvænt upp vinsældalistann.

Raftæki, dýrar yfirhafnir og vatnsflöskur eru á meðal þess sem fulltrúar tveggja af stærri verslunum landsins tala um að rokseljist fyrir jólin.

Airpods, heyrnartólin frá Apple eru að rjúka út. Það er sú einstaka vara sem er vinsælust,“ segir Bragi Þór Antoníuson, markaðsstjóri hjá Elko, um vinsælustu vöruna í versluninni fyrir jólin. Um er að ræða smágerð þráðlaus heyrnartól eða -tappa sem maður setur í eyrun. Heimilistæki og dýrar yfirhafnir eru vinsælastar hjá Heimkaupum.

Þráðlaus heynartól hafa verið ofarlega á jólagjafalista landsmanna undanfarin ár, þegar kemur að raftækjum. Fleiri vörur hafa þó verið vinsælar og er þar skemmst að minnast Sous Vide-eldunartækisins, sem verslanir seldu í þúsundatali í fyrra. Það æði virðist ekki vera búið, ef marka má Jóhann Þórsson, markaðsstjóra Heimkaupa. „Sous Vide var vinsælt í fyrra og við ætluðum ekkert að trana því fram núna. En svo seldist þetta gríðarlega mikið hjá okkur á Cyber Monday,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið. Fleiri eldhústæki hafa selst vel hjá fyrirtækinu fyrir jólin.

Airpods eru vinsælasta jólagjöfin í Elko þessi jólin. Getty Images

Verðlag á Airpods á Íslandi er mjög áþekkt því sem gerist í nágrannalöndunum, ef marka má lauslega athugun Fréttablaðisins. Airpods kosta 24.995 krónur í Elko en það er nánast sama verð og í Elgiganten í Danmörku og Currys í Bretlandi. Airpods kosta 26.990 krónur í Epli og 24.990 krónur í Nova, svo dæmi séu tekin. 

Lægsta verðið virðist vera í Tölvutek en þar kosta Airpods 22.990 krónur.

Chilly's flöskurnar koma í ýmsum litum.

Bragi Þór segir að fjölnota vatnsflöskur séu einnig mjög vinsælar. Chilly‘s flaska kostar á yfirleitt bilinu þrjú til fjögur þúsund krónur, eftir stærð og gerð, en flöskurnar eru þeim eiginleikum gæddar að vera fjölnota og halda hitastigi vel. Flöskurnar eru úr ryðfríu stáli. „Við komumst ekki yfir nógu mikið magn. Þetta rýkur út í hundraðatali,“ segir Bragi Þór. Hann segir að mikill áhugi sé á vörunni enda passi hún vel við ríkjandi sjónarmið um að draga úr plastnotkun og vernda umhverfið.

Fáar hrærivélar virðast ætla að skáka Kitchen Aid.

Þriðja varan – eða vöruflokkurinn – sem Bragi nefnir eru snjalltæki af ýmsum toga. Þar nefni hann Google home, sem er gagnvirkur hátalari sem hægt er að tala við og gefa skipanir. Með honum er hægt að stjórna nettengdum tækjum á borð við sjónvörpum. Apparatið getur lesið fyrir mann, svarað spurningum sem kunna að brenna á manni eða fylgst með veðurspá, svo dæmi séu tekin. Tækið kostar 22.995 krónur í Elko en hægt er að fá minni útgáfu á lægra verði.

Annað snjalltæki sem Bragi nefnir eru Philips Hue-ljósaperurnar. Þeim er hægt að stjórna með snjallsíma og velja úr óteljandi litum og birtustigi. Peran kostar 4.895 krónur.

Þorvaldur Þorvaldsson, vörustjóri ELKO, með Sous Vide tæki frá Anova. Fréttablaðið/Eyþór

Jóhann hjá Heimkaupum segir að Cyber Monday gefi iðulega góða vísbendingu um jólaverslunina. Hann segir að Sous Vide-tækið sé afar vinsælt um þessar mundir en einnig önnur fín eldhústæki á borð við Kitchen-Aid hrærivélar og töfrasprotar. Þá séu dýrar yfirhafni, svo sem stórar dúnúlpur frá Cintamani, afar vinsælar.

Playmobil-leikföngin standast tímans tönn. Getty Images

Spurður hvaða leikföng séu vinsælust hjá foreldrum fyrir þessi jólin segir Bragi að Playmo sé „furðusterkt“ og enn mjög vinsælt. Aukning sé ár frá ári í sölu barnabóka – sem seljist gífurlega vel. „Það er alltaf verið að tala um hnignun bókarinnar en það er aukning milli ára hjá okkur,“ segir hann.

Hann segir að Yrsa sé vinsælasti jólabókahöfundurinn, þegar kemur að bókmenntum fyrir fullorðna, hjá Heimkaupum fyrir þessi jól. Hann segir þó að Arnaldur seljist líka vel, venju samkvæmt.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Jafn mikil­vægt að skapa góðar minningar og eiga fyrir gjöfum

Neytendur

Meðlimakortin flækja skilaréttinn í Costco

Samfélag

Djákni hefur ekki trú á vinsælli plastsuðu

Auglýsing

Nýjast

Marel hækkað um 29 prósent frá áramótum

Ásgeir: „Bitnar verst á þeim sem síst skyldi“

Bjarnheiður segir boðun verkfalla veruleikafirrta leikfléttu

Skotsilfur: Línur að skýrast

ISI sameinar dótturfélög í Suður-Evrópu

Reiknað með 1,7 prósent hagvexti í ár

Auglýsing