Helsti veikleiki á íbúðarhúsnæðismarkaði Íslands, út frá sjónarhóli fjármálastöðugleika, er mikil skuldsetning heimila samhliða hraðri hækkun íbúðaverðs til meðallangs tíma. Þetta segir Evrópska kerfisáhætturáðið (ESRB).

Fimm lönd fengu viðvörun

Ísland hefur fengið viðvörun um veikleika á íbúðarhúsnæðismarkaði frá ESRB. Þetta kemur fram á vef Fjármálaeftirlitsins.

Ísland var eitt af fimm löndum sem fengu slíka viðvörun, ásamt Frakklandi, Noregi, Tékklandi og Þýskalandi. Viðvörunin er byggð á ítarlegri skýrslu um veikleika á húsnæðismarkaði í Evrópu.

Ísland hefur þegar gripið til fjölmargra aðgerða til að milda áhrif veikleika á húsnæðismarkaðaði á fjármálastöðugleika, tekur ESRB fram í viðvöruninni. Ráðið leggur hins vegar til að Ísland bregðist við með því að setja takmörk á hlutfall skulda af tekjum heimila (e. Debt to income) og að beiting þjóðhagsvarúðartækja sem takmarka skuldahlutföll þurfi að taka mið af stöðunni í efnahagslífinu og fjármálakerfinu hverju sinni með hliðsjón af kostnaði og mögulegum ávinningi.

Íslenskum stjórnvöldum var gefinn kostur á að bregðast við viðvörun ESRB, líkt og stjórnvöldum annarra landa sem fengu sambærilega viðvörun.

Íslandi muni grípa til viðeigandi aðgerða

Svar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra var birt samhliða viðvöruninni.

Bjarni segir það koma greina að skoða beitingu þjóðhagsvarúðartækja sem takmarki skuldahlutföll heimila og að eftirlitsaðilar haldi áfram að vakta og greina veikleika á húsnæðismarkaði og áhrif þeirra á fjármálastöðugleika.

Íslandi muni grípa til viðeigandi aðgerða ef þess verður talin þörf að teknu tilliti til efnahagslegra aðstæðna, stöðu á fjármálamarkaði og annarra aðgerða stjórnvalda.