Sjávarútvegsfyrirtækið Eskja hefur lokið útboði á tveimur víxlaflokkum til þriggja mánaða í erlendri mynt. Um er að ræða fyrsta rekstrarfélagið í langan tíma sem gefur út víxla í erlendri mynt. Arion banki var umsjónaraðili útboðsins, segir í tilkynningu.

Umtalsverð eftirspurn var í útboðinu og bárust tilboð að fjárhæð tæplega 4,3 milljónir dollara í flokkinn ESKJAUSD0121 og fjögurra milljóna evra í flokkinn ESKJAEUR0121, samtals að jafnvirði 1.240 milljón króna.

Eskja ákvað að taka tilboðum að jafnvirði 759 milljónum króna. Með útgáfunni er félagið að auka fjölbreytni fjármögnunar sinnar, en það er nú að stærstum hluta fjármagnað með sambankaláni frá Arion banka og erlendri fjármálastofnun.

Eskja er sjávarútvegsfyrirtæki sem sérhæfir sig í veiðum á uppsjávarfisk auk þess að framleiða hágæðavörur úr fiski. Höfuðstöðvar félagsins eru á Eskifirði í nánd við einstaka innviði fyrir uppsjávarveiði. Félagið leggur mikla áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð en til að mynda er öll landsvinnsla félagsins knúin með rafmagni sem unnið er úr 100 prósent endurnýjanlegum orkugjöfum.

Tekjur Eskju námu um 66,7 milljónum dollara í fyrra. Eignir félagsins námu 197,6 milljónir dollara og eigið fé var 84,2 milljónir dollara eða sem samsvarar 43 prósent eiginfjárhlutfalli við lok árs 2019.