Evrópusambandið hefur biðlað til streymisveita á borð við Netflix og Youtube að takmarka þjónustu sína til að netsamband í álfunni standist álagið sem skapast þegar tugi milljóna manna fara að vinna heima hjá sér vegna kórónaveirunnar. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Evrópusambandið lagði til að streymisveitur íhugi að bjóða myndefni einungis í hefðbundinni upplausn í stað hágæða upplausn og að forrit og notendur sýni ábyrgð hvað varðar notkun á gagnamagni.

Óttast er að netkerfin, sem hafi verið hönnuð til að ráða við aukna notkun á kvöldin, geti mögulega ekki ráðið við það að fólk á vinnumarkaði tali lengi saman í gegnum fjarfundabúnað og að nemendur sæki kennslustundir í gegnum netið, spili tölvuleiki eða horfi lengi á sjónvarp.

Mark Zuberberg, forstjóri Facebook, segir að símtöl í gegnum WhatsApp og Messenger hafi tvöfaldast. Notkunin sé meiri en á álagstímum á gamlárskvöld. Það sé áskorun að ráða við aukið álag á kerfið.