Gengið var frá tveim stórum fríverslunarsamningum í vikunni; annars vegar á milli Evrópusambandsins og suður-amerísku viðskiptablokkarinnar Mercosur og hins vegar á milli ESB og Víetnam.

Fráfarandi forseti framkvæmdastjórnar ESB skafaði ekki af mikilvægi samningsins við Mercosur, og sagði að samningurinn væri stærsti viðskiptasamningur ESB frá upphafi. Sagði hann jafnframt að samningurinn bæri vott um að ESB stæði að regluföstum viðskiptum, og setti það í samningi við geisandi verslunarstríðs milli Bandaríkjanna og Kína.

Stærsti neytendamarkaður heims

Mercosur samanstendur af fjórum Suður-Ameríkuríkjum: Argentínu, Brasilíu, Úrúgvæ og Paragvæ. Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, sagði samninginn sögulegan og að þetta væri einn mikilvægasti verslunarsamningur allra tíma.

Markmið samningsins er að lækka eða fella niður tolla til þess að gera innfluttar vörur ódýrari fyrir neytendur og styrkja útflutning fyrir fyrirtæki beggja aðila. Samningurinn myndar markað fyrir næstum 800 milljón manns, sem gerir hann þann stærsta í heimi með tilliti til fólksfjölda.

Sífjölgandi samningum í Suðaustur Asíu

Þá skrifaði yfirmaður Evrópusambandsins í viðskiptamálum, Cecilia Malmstrom, undir fríverslunarsamning við Víetnam í dag. Samningnum er lýst af fulltrúum ESB sem metnaðarfyllsta fríverslunarsamning ESB við þróunarland fram til þessa.

Samningurinn mun fella niður 99 prósent tolla á milli Evrópsku viðskiptablokkarinnar og Víetnam. Aðrar vörur, svo sem landbúnaðarvörur, verða bundnar innflutningskvótum.

Víetnam er eitt þeirra hagkerfa sem stækka hraðast í heiminum í dag.

Þá stendur ESB í samningaviðræðum við Indónesíu, Malasíu, Filippseyjar og Tæland, auk þess að hafa þegar undirritað fríverslunarsamninga við Suður-Kóreu, Japan og Singapúr.