Svo virðist sem að Íslendingar ætli að skella sér í sólina um páskana en vel hefur bókast í páskaferðir hjá ferðaskrifstofum.

VITA býður upp á ferðir til Tenerife og Alicante um páskana. Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri VITA segir í samtali við Fréttablaðið að örfá sæti séu laus í ferðirnar.

„Við erum bara að selja síðustu sætin. Það eru tvær ferðir í boði til Tenerife og ein til Alicante. Á Alicante svæðinu erum við aðalega að þjónusta fólk sem á hús á svæðinu og er að fara í þau, við erum ekki að selja hefðbundnar pakkaferðir þangað eins og til Tenerife," segir Þráinn.

VITA hefur verið að fljúga til Tenerife og Kanarí frá því um jólin en að sögn Þráins hefur það gengið vel.

„Við höfum stillt framboðið eftir eftirspurninni og það hefur bókast ágætlega í þessi flug. Það hefur verið meiri aðsókn í páskasferðirnar en ferðirnar í janúar og febrúar. Það eru eðlilega mun færri að ferðast en við erum vön en núna eru fleiri búnir að fá bólusetningu og um 6 þúsund manns hafa nú þegar fengið COVID-19. Það er alveg greinilegt að fólk er meiri tilbúið til að ferðast," segir Þráinn að lokum.

Fólk orðið ferðaþyrst

Ingibjörg Elsa Eysteinsdóttir, forstöðumaður Úrval Útsýna, Sumarferða og Plúsferða segir að ennþá séu nokkur sæti laus í páskaferðir til Tenerife.

„Við erum með tvær ferðir til Tenerife núna um páskana. Við finnum fyrir því að fólk er orðið ferðaþyrst og langar að fara komast í sólina. Við erum með mjög fjölbreytt úrval af gistingum í boði hjá okkur og mikið af íbúðagistingum en það hefur aukist töluvert fyrirspurn eftir því að vera í íbúðagistingum. Fólk virðist sækjast í að fá meiri prívate aðstöðu fyrir sig og kýs þá frekar íbúðagistingu heldur en hótelherbergi," segir Ingibjörg.

Hún segir að ástandið á Tenerife sé þokkalegt, smitum fari fækkandi á eyjunni en lífið sé töluvert rólegra en í venjulegu árferði.

Þurfa ekki að sýna fram á PCR próf

Farþegar frá Íslandi þurfa ekki að sýna fram á neikvætt PCR próf við komuna til Tenerife þar sem Ísland er ekki flokkað sem áhættusvæði. Hins vegar þurfa þeir sem gista á hóteli að sýna fram á neikvætt PCR próf til að mega gista þar. Þeir sem eru að fara í eigin hús eða íbúðir sleppa því við að framvísa prófinu.