Það er ekki hægt að gera almenna kröfu um stór viðskipti þegar óvissan er jafn mikil og raun ber vitni. Birta mun ekki bara stökkva til af því að verð hefur lækkað, segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs. Að hans sögn hefur sjóðurinn ekki verið stórtækur á hlutabréfamarkaði undanfarnar vikur en engu að síður virkur.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hefur verið langsamlega atkvæðamesti lífeyrissjóðurinn á hlutabréfamarkaði á síðustu fjórum vikum og má varlega áætla, að sögn þeirra sem þekkja til, að sjóðurinn hafi keypt í skráðum félögum fyrir um átta milljarða á tímabilinu.

Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE) og Gildi hafa aukið umsvif sín að undanförnu en Gildi keypti rúmlega fimm prósenta hlut í VÍS fyrir 830 milljónir króna í síðustu viku. Þannig tók sjóðurinn við rúmum helmingi bréfa breska eignastýringarfyrirtækisins Miton Group sem seldi allan 9,1 prósenta hlut sinn í íslenska tryggingafélaginu.

Miton seldi einnig allan 6,3 prósenta eignarhlut sinn í Sjóvá fyrir um 1.160 milljónir króna í síðustu viku. Lífeyrissjóður verslunarmanna nýtti tækifærið til að bæta við sig 2,6 prósentum og LSR bætti við sig 2,5 prósentum. Þá hefur LIVE einnig bætt við sig í Arion banka, Högum og Origo.

Fyrir kaupin í Sjóvá hafði LSR sjóðurinn flaggað kaupum í þremur félögum í Kauphöllinni, Festi, Kviku og Regin, auk þess sem hann hefur bætt við sig bréfum í flestum öðrum fyrirtækjum.

„Við höfum trú á að dýfan verði ekki það langvarandi.“

Þá bætti sjóðurinn verulega við hlut sinn í Arion banka í gær en í flöggun til Kauphallarinnar eftir lokun markaða kom fram að sjóðurinn hefði keypt 10 milljónir hluta, á genginu 50,5 krónur á hlut, og ætti nú 5,1 prósents hlut í bankanum.

„Á þessum tímum þá grípum við þau tækifæri sem gefast með langtímahagsmuni að leiðarljósi,“ segir Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSE, í samtali við Markaðinn.

„Við höfum verið að taka til okkar það sem við höfum metið sem góðar fjárfestingar og höfum trú á að dýfan verði ekki það langvarandi,“ bætir hún við.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Spurð hvort æskilegt sé að lífeyrissjóðirnir auki virkni sína á markaði í þessu ástandi segist Harpa ekki vilja svara fyrir hönd annarra sjóða. „En við höfum talið það okkar hlutverk sem mjög stór aðili á markaðinum að vera þátttakendur í honum.“

Á meðal sumra viðmælenda Markaðarins, sem meðal annars stýra hlutabréfafjárfestingum, gætir pirrings yfir því að margir lífeyrissjóðir hafi haldið að sér höndum. Þeir geri lítið til þess að viðhalda veltu á markaðinum á meðan umbrot standa yfir. Sjóðirnir hafi komið þeim skilaboðum á framfæri til miðlara að þeir séu að „meta stöðuna“.

„Það væri ófaglegt að vera með stór kauptilboð í öllum félögum til að geta tekið við hverju sem er.“

Ekki voru þó allir viðmælendur Markaðarins á einu máli um að lífeyrissjóðirnir ættu að blása lífi í hlutabréfamarkaðinn.

„Ég vil ekki að lífeyrissjóðirnir verði björgunarsveitir fyrir einkafjárfesta sem tóku of mikla áhættu og fóru illa út úr framvirkum samningum. Það væri ófaglegt að vera með stór kauptilboð í öllum félögum til að geta tekið við hverju sem er,“ hafði einn á orði.

„Þeir geta hins vegar nýtt tæki­færin sem fylgja veðköllum á slæmum dögum á markaði og tekið við bréfum á lágum verðum,“ bætti hann við.

Bæta við sig þegar rofar til

Ólafur segir að umboðsskylda lífeyrissjóðsins sé sú að tryggja lífeyrisgreiðslur eins og kostur er með ábyrgum fjárfestingum. Það megi vera að tækifæri skapist á markaðinum en ekki megi gleyma því að ríkar kröfur séu gerðar til fjárfestinga lífeyrissjóða. Þær þurfi að byggja á greiningu á upplýsingum.

„Það er ekki ólíklegt þegar rofar til að lífeyrissjóðir eins og aðrir fjárfestar horfi til mögulegra tækifæra á markaði og bæti við sig,“ segir Ólafur. Hann bendir á að innlendi markaðurinn sé ekki ólíkur alþjóðlegum mörkuðum sem einkennast af miklum lækkunum.

„Þar ber ekki mikið á umræðu um að tilteknum fagfjárfestum beri að stíga inn á markaðinn til að sporna við ástandinu,“ segir Ólafur.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu.
Ljósmynd/Birta

Spurður hvort breyttar aðstæður kalli á breytt verklag hjá Birtu lífeyrissjóði segir Ólafur að samskipti við formann og varaformann stjórnar séu tíðari. Leitast sé við að upplýsa alla eins og kostur er.

„Mikill tími hefur farið í að undirbúa sjóðinn undir það sem blasir við öllum, virkja neyðaráætlun og auka fjarvinnugetuna eins og kostur er til að tryggja órofna starfsemi,“ segir Ólafur.

Gunnar Baldvinsson, fram-kvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, sagði í samtal við Markaðinn í síðustu viku að eftir miklar lækkanir á hlutabréfamörkuðum hér heima og erlendis síðustu vikur gætu farið að myndast tækifæri fyrir langtímafjárfesta. Þó væri mikilvægt að slíkir fjárfestar héldu sjó og tækju ekki neinar skyndiákvarðanir. Skynsamlegast væri að þeir héldu sinni fjárfestingastefnu.

Haldi markaðinum gangandi

„Það eru mikil hagsmunir fólgnir í því að hér sé lífvænlegur hlutabréfamarkaður. Nú má segja að ef menn ætla að halda hlutabréfamarkaðinum gangandi þá verði lífeyrissjóðirnir að stíga inn,“ segir einn af viðmælendum Markaðarins. Hann bætir við að viðskiptavaktir bankanna, sem gegna því hlutverki að stuðla að góðri verðmyndun og seljanleika á markaði, hafi minnkað verulega áður en hremmingarnar byrjuðu. Fyrir vikið séu oft miklar verðsveiflur í lítilli veltu.

Annar viðmælandi bendir á að vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni lífeyrissjóðanna hafi minnkað vegna verðlækkana í Kauphöllinni og því sé „ekki óeðlilegt að sjóðirnir horfi til þess að bæta við sig í innlendum bréfum“.

Hlutabréfamarkaðnum er lýst sem óskráðum markaði eins og staðan er í dag af einum viðmælanda. Verðmyndunin sé svo óskilvirk. Hann segir að á meðal fagfjárfesta ríki sterkur skilningur á að nú sé ekki rétti tíminn til að kasta frá sér bréfum á þeim verðum sem eru í boði. Fagfjárfestar vilji heldur „kalla botninn og grípa tækifærin þegar þau gefast“.