Erna Björg Sverrisdóttir hefur verið ráðin aðalhagfræðingur Arion banka en hún starfaði um nokkurra ára skeið í greiningardeild bankans sem nýlega var lögð niður.

Erna Björg útskrifaðist með BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og MS í hagfræðilegri stefnumótun frá Erasmus University Rotterdam 2015. Hún hóf störf hjá greiningardeild bankans árið 2013 þar sem hún hélt meðal annars utan um hagspá deildarinnar.

Nýlegar skipulagsbreytingarnar í Arion banka fólu í sér að greiningardeild bankans yrði lögð niður. Starfsmönnum greiningardeildarinnar var ekki sagt upp heldur færðust þeir yfir á önnur svið bankans. Samkvæmt nýju skipuriti er starfandi aðalhagfræðingur á skrifstofu bankastjóra og hefur Erna Björg verið ráðin í það starf.

Stefán Broddi Guðjónsson var forstöðumaður greiningardeildarinnar frá árinu 2015 en auk hans störfuðu fimm aðrir sérfræðingar í deildinni. Greiningardeild Arion gaf reglulega út Markaðspunkta þar sem fjallað er um íslenskt efnahagslíf.