Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 20 prósent á milli ára í september. Fjöldinn var 183.600 í septembermánuði eða 48 þúsund færri en á sama tíma fyrri ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Mest munar um fækkun Bandaríkjamanna, en brottförum þeirra fækkaði um 35 þúsund frá því í september 2018 eða um 43 prósent á milli ára.

Fækkun hefur verið alla mánuði frá áramótum. Í janúar nam hún sex prósent, í febrúar sjö prósent, í mars tvö prósent, í apríl 19 prósent, í maí 24 prósent, í júní 17 prósent, í júlí 17 prósent og 14 prósent í ágúst.

Flestir frá Bandaríkjunum

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir ferðamanna í september eða um fjórðungur brottfara en þar á eftir komu Þjóðverjar (átta prósent af heild) og Bretar (sex prósent af heild).

Mynd/Ferðamálastofa

Frá áramótum hafa tæplega 1,6 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 14 prósent fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.

Næstflestir frá Þýskalandi

Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir í september tilkomnar vegna Bandaríkjamanna sem fyrr segir. Þjóðverjar voru í öðru sæti en brottfarir þeirra voru um 14.300 talsins eða tólf prósent færri en í september árið áður. Í þriðja sæti voru brottfarir Breta, tæp 11.800 talsins og fækkaði þeim um 13 prósent milli ára.

Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Pólverja (fimm prósent af heild), Kanadamanna (fjögur prósent af heild), Kínverja (fjögur prósent af heild), Spánverja (fjögur prósent af heild), Frakka (fjögur prósent af heild), Dana (þrjú prósent af heild) og Norðmanna (tvö prósent af heild).

Íslendingar fara minna til útlanda

Um 49.700 Íslendingar fóru utan í september í ár eða 14 prósent færri en í september 2018. Frá áramótum hafa um 465.600 Íslendingar farið utan eða sjö prósent færri en á sama tímabili í fyrra.