Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@frettabladid.is
Miðvikudagur 28. október 2020
07.00 GMT

Heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health, sem er með tæplega 40 starfsmenn, hefur tryggt sér 20 milljóna Bandaríkjadala fjármögnun, jafnvirði 2,8 milljarða íslenskra króna, til þess að styðja við vöxt félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum. Fjármögnunin er leidd af tveimur erlendum vísisjóðum, sérhæfðum í líftækni- og heilbrigðistæknifyrirtækjum.

Tryggvi Þorgeirsson, annar stofnandi og forstjóri Sidekick, segir að fyrirtækið þrói heilbrigðismeðferðir til að bæta heilsu fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma. Meðferðinni er miðlað í gegnum fjarheilbrigðiskerfi fyrirtækisins sem skráð er sem CE-merkt lækningatæki. Sá markaður hafi farið hratt vaxandi á undanförnum fimm árum. Í COVID-19 halda margir sig heima fyrir og þess vegna hafi markaðurinn vaxið enn hraðar en áður. „Að því sögðu er vert að nefna að heilbrigðisþjónusta hefur verið seinni í stafrænni umbreytingu en ýmsar aðrar atvinnugreinar.“

Novator og Frumtak

Hann segir að fjármögnunin hafi verið leidd af Wellington Partners, sem sé einn stærsti sjóður sinnar tegundar í Evrópu með um milljarð evra í stýringu, og öðrum evrópskum sjóði – Asabys Partners, sem sérhæfir sig í líftækni- og fjarheilbrigðistæknifjárfestingum. „Núverandi hluthafar, Novator og Frumtak Ventures, tóku jafnframt þátt í fjármögnuninni,“ segir hann.

Svana Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Sidekick og framkvæmdastjóri vísisjóðs Frumtaks Ventures, segir að það sé frábært að sjá sprotafyrirtækið ná þessum árangri og staðfesti „trú okkar að félagið hafi það sem til þarf til að verða leiðandi á alþjóðavísu í stafrænum heilsutæknilausnum“.

Svana Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Sidekick.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sidekick er á mikilli siglingu. Fyrr á árinu greindi tæknifyrirtækið frá milljarðasamningi við alþjóðlega lyfjarisann Pfizer og seint á síðasta ári tilkynnti það um samstarfssamning við Bayer, eitt af stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Til stendur að greina frá öðrum samningi við eitt af stærstu lyfjafyrirtækjum heims á næstu mánuðum.

Tryggvi segir að Sidekick skipi sess á meðal fremstu fyrirtækja í heimi á sínu sviði.

Sæmundur Oddsson, framkvæmdastjóri lækninga og rannsókna og hinn stofnandi fyrirtækisins, segir að fjármagnið verði nýtt til þess að styðja við öran vöxt Sidekick. „Þeir fiska sem róa. Tækifærið sem við stöndum frammi fyrir er gríðarlegt. Við erum með samkeppnisforskot núna og megum engan tíma missa. Við munum opna sölu- og markaðsskrifstofur á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum og bæta hraustlega í hraðann við þróun og rannsóknir. Til þess þurfum við að halda áfram að bæta við okkur framúrskarandi liðsfélögum á næstu misserum en nú starfa tæplega 40 manns hjá félaginu. Til að anna eftirspurn reiknum við með að starfsmenn verði tvöfalt fleiri strax á næsta ári. Okkar metnaður er að spila í efstu deild og við höfum verið mjög heppin með úrvalsfólk í teyminu. Stór hluti af uppbyggingunni mun fara fram á Íslandi. Þungamiðjan í rekstrinum er og verður hérlendis.“

Sæmundur Oddsson og Tryggvi Þorgeirsson, stofnendur Sidekick.
Fréttablaðið/Anton Brink

Tryggvi, sem er læknir eins og Sæmundur, segir að samkeppnisforskotið felist í að það hafi verið gerðar klínískar rannsóknir á meðferðarúrræðum Sidekick. Þess vegna sé það vísindalega sannað að þau virki.

Hann segir að um 86 prósent dauðsfalla á Vesturlöndum megi rekja til langvinnra lífsstílstengdra sjúkdóma og 70-80 prósent af kostnaði heilbrigðiskerfisins fari í að meðhöndla þá.

„Við Sæmundur erum báðir læknar og það sló okkur að það skorti tól til að taka heildstætt á vandanum. Við gátum ávísað lyfjum, sem er hluti af meðferðinni, en það þarf meira til þegar kemur að langvinnum lífsstílstengdum sjúkdómum, eins og að bæta mataræði, hreyfingu og leita leiða til að draga úr streitu. Núverandi heilbrigðiskerfi er ekki að öllu leyti rétt sett upp til að takast á við umfang þessara sjúkdóma, en með aðstoð heilbrigðistækni er hægt að ná mun betri árangri og nýta betur dýrmætan tíma heilbrigðisstarfsfólks sem og það mikla fé sem er sett í málaflokkinn,“ segir Tryggvi.

Hann segir að hluti vandans sé að um helmingur sjúklinga taki ekki lyf eins og þeim hafi verið ávísað. „Rúmlega 300 þúsund mannslíf tapast árlega í Bandaríkjunum og Evrópu vegna þess að sjúklingar eru ekki að fylgja meðferðinni eins og lagt var upp með,“ segir Tryggvi.

Sökk niður í sætið

Sæmundur segir að Sidekick hafi fengið mikinn vind í seglin meðal annars vegna þess að heilbrigðisstarfsfólk um allan heim þekki þennan vanda. „Þegar ég vann sem sérfræðilæknir á hjartadeild á stóru erlendu háskólasjúkrahúsi var ég með sjúkling sem hafði í nokkurn tíma glímt við kransæðastíflu og vegnaði æ verr. Þetta var venjulegur dagur og ég hafði skamman tíma til að sinna honum, eins og venja er á sjúkrahúsum. Ég segi honum að hann verði að taka lyfin eins og þeim var ávísað og breyta lífsstílnum annars myndi hætta á öðru hjartaáfalli aukast töluvert. Að svo búnu kveðjumst við. Stuttu seinna verður mér litið út um gluggann og þar sé ég sjúklinginn kveikja sér í sígarettu. Ég sökk niður í sætið og hugsaði með mér að einhverju yrði að breyta. Við það rann það upp fyrir mér að sjúklingurinn var miklu áhugasamari um það sem átti sér stað í snjallsímanum hans en það sem okkur fór á milli. Þarna var fræjunum sáð hjá mér.


„Ég sökk niður í sætið og hugsaði með mér að einhverju yrði að breyta.“


Á sama tíma var Tryggvi vinur minn að vinna brautryðjendavinnu með hópi fólks meðal annars við Háskóla Íslands, Harvard-háskóla og MIT við að tengja saman atferlisfræði og snjalltækni til að ná betri árangri við lífsstílsbreytingar – þar með talið fyrir fólk með lágt heilsulæsi eða lága áhugahvöt. Við fórum að stinga saman nefjum, áttum sama drauminn um að hafa áhrif á sjúklinga á stórum skala og úr varð Sidekick.“

Sæmundur leggur áherslu á að nýju fjárfestarnir hafi mikla þekkingu á rekstri heilbrigðistæknifyrirtækja sem þeir muni miðla til starfsmanna Sidekick. „Þeir hafa djúpt tengslanet. Við fáum því góða liðsfélaga sem leggja hönd á plóg. Það mun skila sér í auknum viðskiptatækifærum.“

Hvenær var fyrirtækið stofnað og hvernig var vegferðin í stuttu máli?

Tryggvi: „Árið 2013 fengum við styrki úr Lýðheilsusjóði, Thorvaldsensfélaginu og Tækniþróunarsjóði og hófum að byggja teymi til að takast á við verkefnið. Það hefur verið einstakt lán hvað við höfum fengið til liðs við okkur hæfileikaríkan hóp af samstarfsfólki – við forritun, hönnun, sölu og markaðssetningu – sem og fólk með víðtæka reynslu úr heilbrigðisgeiranum. Við ýttum fyrirtækinu úr vör árið 2014 og verjum fyrstu tveimur árunum í að smíða frumgerð af vörunni. Þegar varan er orðin nægilega góð hefjast fyrstu klínísku rannsóknirnar og árið 2017 birtum við fyrstu klínísku rannsóknina á vísindaþingi í Bandaríkjunum. Þær vöktu eftirtekt og með þær í farteskinu hófum við samstarf við stór fyrirtæki á borð við Pfizer. Í fyrra gerði lyfjafyrirtækið prófanir með sínum sjúklingum og þær reyndust afar vel. Síðan þá hefur verið mikill vöxtur hjá okkur.“

,,Svona nýsköpun í heilbrigðistækni krefst þrautseigju,“ segir Sæmundur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hvenær fenguð þið fyrsta fjárfestinn?

Sæmundur: ,,Svona nýsköpun í heilbrigðistækni krefst þrautseigju og við höfum verið mjög lánsamir með fjárfesta. Novator hefur alla tíð gert sér grein fyrir stærð tækifærisins og stutt vel við bakið á okkur frá byrjun ásamt sterkum einkafjárfestum og Frumtak bættist svo í hópinn árið 2017.“

Sagan af Gullbrá

Hvernig völduð þið erlenda vísisjóði til að vinna með?

Tryggvi: „Það að finna erlenda fjárfesta á þessu stigi hjá fyrirtækinu minnir um margt á söguna af Gullbrá. Eitt rúmið er of stórt og annað of lítið. Það þarf allt að smella til að finna réttu sjóðina til að vinna með. Sjóðirnir þurfa að hafa sérþekkingu og reynslu á okkar sviði, tímasetningin verður að vera rétt, enda kemur að þeim tímapunkti að vísisjóðir eru fullfjárfestir. Svo mega þeir ekki hafa fjárfest í samkeppnisaðila. Það er því margt sem þarf að ganga upp.


„Það að finna erlenda fjárfesta á þessu stigi hjá fyrirtækinu minnir um margt á söguna af Gullbrá. Eitt rúmið er of stórt og annað of lítið. “


Það sem hjálpaði okkur mikið við að sigta út heppilega sjóði og fá fundi var að Sidekick var valið á meðal bestu vaxtarfyrirtækja í Evrópu í keppni á vegum EIT Digital, sem er starfrækt af Evrópusambandinu. Í kjölfarið hjálpaði EIT Digital okkur við að bera kennsl á sjóði sem gætu komið til greina sem hluthafar og aðstoðaði við að koma á fundum. Það var dýrmætt fyrir okkur.

Tengingar við vísisjóði geta komið úr mörgum áttum. Þakka má samstarfi okkar við Pfizer að við fengum fund með Wellington Partners. Starfsmaður lyfjafyrirtækisins taldi að við gætum unnið vel saman og tengdi okkur. Í kjölfarið kom í ljós að Abasys og Wellington fjárfesta oft saman.“

Af hverju eru viðskiptavinir, eins og lyfjafyrirtæki, að leita til ykkar?

Tryggvi: „Okkar markmið er að bæta heilsu og líðan fólks með langvinna sjúkdóma. En jafnframt því þurfum við að tryggja fyrirtækinu rekstrargrundvöll. Til þess þarf viðskiptavini sem geta greitt fyrir þjónustuna. Við fórum þá leið að biðja ekki sjúklinga að greiða fyrir þjónustuna. Alþjóðleg lyfjafyrirtæki hafa brugðist hratt við enda mikill fjárhagslegur ávinningur í húfi fyrir þau.

Þannig er mál með vexti að það kostar tvo til þrjá milljarða dollara að setja nýtt lyf á markað. Lyf vinnur á tilteknum hluta sjúkdóms. Ef hægt er að bæta heilsu og líðan sjúklinga með því að bæta okkar meðferð við virkni lyfsins batnar samkeppnisstaða lyfjafyrirtækjanna og styrkir stöðu þeirra gagnvart sjúkratryggingum í hverju landi.“

Læknar, ekki tæknifólk

Hvernig er samkeppnisumhverfið?

Tryggvi: „Á allra síðustu misserum höfum við skapað okkur stöðu á meðal fremstu fyrirtækja í heimi á þessu sviði. Þess vegna hafa stór alþjóðleg fyrirtæki á heilbrigðismarkaði valið okkur sem samstarfsaðila.

Samkeppnin er hörð. Þetta er kapphlaup en við höfum skapað okkur sérstöðu. Sérstaðan felst ekki síst í því að fyrirtækið er stofnað af læknum og leggur höfuðáherslu á klíníkina ólíkt mörgum öðrum samkeppnisaðilum okkar sem nálgast viðfangsefnið fyrst frá tæknihliðinni. Við horfum fyrst til sjúklinganna og sníðum lausnina okkar eftir þeirra þörfum.“

Hann segir að jafnvel þótt fyrirtækið hafi þrefaldað fjölda starfsmanna á undanförnu ári, og þeir séu tæplega 40, sé verið að keppa við mun stærri fyrirtæki erlendis.

Sæmundur nefnir að meðferðin sé einnig leikjavædd til að nýta tæknina og bæta líðan eins mikið og kostur sé. „ Það hefur verið frábært að sjá hversu vel okkur hefur tekist að bæta líðan og árangur sjúklinga víða um heim. Við höfum ákveðna innsýn sem læknar um hversu erfitt er fyrir fólk að eiga við langvinna sjúkdóma. Þess vegna höfum við lagt áherslu á jákvætt viðmót, hvatningu og að verðlauna fólk fyrir að bæta heilsu sína. Til dæmis vill enginn vera minntur á sí og æ af símanum að hann sé með sjúkdóm.“

Hvernig eru leikir sem hjálpa fólki með sjúkdóma sína?

Tryggvi: „Við nýtum leikjavæðingu sem eitt af tólunum til að skapa jákvæða upplifun af meðferðinni og ýta undir árangursríka langtímanotkun. Vissulega er viðfangsefnið alvarlegt og við leggjum okkur fram við að kafa djúpt ofan í sjúkdóm þeirra sem við erum að aðstoða. En það er hægt að verðlauna það þegar fólk stígur skref í rétta átt og nær árangri. Við erum til dæmis að vinna með sjúklingum sem eru með slagæðaþrengingar í fótum. Það getur framkallað mikinn verk vegna blóðþurrðar í fótum þegar vöðvarnir fá ekki blóð og súrefni. Hluti af lækningunni er að auka göngugetu sjúklinga og við þjálfum fólk í að láta sársaukann ekki stöðva sig. Þetta er einn af þeim þáttum sem hægt er að leikjavæða til að bæta árangur.“

„Við erum að feta nýja braut innan læknisfræðinnar og því fylgja auðvitað ýmiss konar áskoranir,“ segir Sæmundur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar í uppbyggingu Sidekick?

Sæmundur: „Við erum að feta nýja braut innan læknisfræðinnar og því fylgja auðvitað ýmiss konar áskoranir.“

Tryggvi: „Ein af áskorunum er að koma auga á rétta viðskiptamódelið, enda er um nýtt svið að ræða, eins og Sæmundur nefnir. Stóru lyfjafyrirtækin eru að skoða með hvaða hætti okkar þjónusta passar við þeirra viðskiptamódel.

Áður en við fengum klínískar niðurstöður úr rannsóknum gátum við ekki unnið með lyfjafyrirtækjum og öðrum aðilum á heilbrigðismarkaði. Á meðan við biðum eftir niðurstöðum urðum við að reiða okkur á fjárfesta sem höfðu trú á verkefninu.“


„Ein af áskorunum er að koma auga á rétta viðskiptamódelið.“


Tryggvi segir að það fylgi því ekki eingöngu ævintýraljómi að stofna fyrirtæki. „Fólk þekkir sögur af sprotafyrirtækjum sem hafa náð ævintýralegum árangri. En að baki liggur blóð, sviti og tár og það er ekki á vísan að róa. Þetta útheimtir gríðarlega vinnu og þrjósku en er líka feikilega gaman og gefandi.“

Hvers vegna er heilbrigðisþjónusta skemmra á veg komin á stafrænni vegferð en ýmsir aðrir?

Sæmundur: „Það gilda stífar reglur um heilbrigðisþjónustu, sem er af hinu góða. Það er verið að vinna með líf og heilsu fólks. Það hefur hins vegar hægt á framþróun að einhverju leyti, enda margar hindranir sem þarf að komast í gegnum til að hrinda svona í framkvæmd.“

Á eftir í stafrænni umbyltingu

Tryggvi: „Af ýmsum ástæðum hefur heilbrigðiskerfið verið á eftir í stafrænni umbyltingu. Heilbrigðiskerfið var hannað á síðustu öld þegar það tók meira á bráðavanda, eins og sýkingum og slysum. Nú aftur á móti er heilbrigðiskerfið að sinna fyrst og fremst langvinnum lífsstíltengdum sjúkdómum. Þar af leiðir er það er ekki hagstætt, hvorki fyrir sjúklinga né heilbrigðiskerfið, að fást við verkefnið inni á stofnunum nema að hluta til.

Það er hægt að bjóða margar meðferðir í gegnum snjalltæki. Hér gildir það sama og um bankaþjónustu. Hún batnaði verulega í kjölfar stafrænnar umbyltingar og við getum núna sinnt flestum okkar bankaerindum í gegnum snjallsíma. Við erum að gera hið sama; færa heilbrigðisþjónustuna inn í daglegt líf hvers og eins. Fólk vill geta sinnt því sem gera þarf á eigin forsendum en ekki fara á heilbrigðisstofnun og bíða eftir stuttum viðtalstíma. Gangi sú framtíðarsýn eftir mun það leiða til þess að dýrar heilbrigðisstofnanir með sérhæfðu starfsfólki geta einbeitt sér að flóknustu verkefnunum.“

Sæmundur: „Við hjá Sidekick leggjum mikið upp úr aðferðum gagnreyndrar læknisfræði, það er eitt okkar aðalsmerki og hefur veitt okkur samkeppnisforskot. Það hefur verið gífurlega spennandi að sjá hvernig bæta má heilsu og líðan sjúklinga marktækt með þessari tækni okkar – og má þar nefna bætta stjórn á blóðsykri, bætt lífsgæði og minni einkenni þunglyndis og kvíða.“

Hvað er þetta fólk að gera öðruvísi í sínu lífi?

Sæmundur: „Það fær meiri stuðning og hvatningu. Það hefur skort í meðferðina. Auk þess fær það kennslu í hvernig eigi að takast á við margar hliðar sjúkdómsins, eins og sjúkdómseinkenni og hvernig bæta má líðan með breyttum lífsstíl.“

Tryggvi: „Meðferðaraðili getur einnig fylgst með framgangi mála og ef á þarf að halda er kallað á sjúklinginn í skoðun. Fyrir skemmstu fékk sjúklingur hjartaáfall heima hjá sér. Einkennin voru ódæmigerð og því áttaði viðkomandi sig ekki á hvað gerst hafði. Hjúkrunarfræðingur veitti einkennunum athygli í gegnum kerfið okkar, hafði samband og lagði sjúklinginn inn á spítala. Þetta getur því haft veruleg áhrif á líf fólks.“

Sprotar hafa sótt fé erlendis í COVID-19

Frá því að kórónaveiran blossaði upp í Evrópu í mars hafa íslensk sprotafyrirtækið safnað umtalsverðu fé frá erlendum fjárfestum. Eins og fyrr segir safnaði Sidekick Health 20 milljóna Bandaríkjadala fjármögnun, jafnvirði 2,8 milljarða íslenskra króna.

GRID, sem aðstoðar notendur töflureikna á borð við Microsoft Excel við að miðla upplýsingum á hreinlegan og skilvirkan máta, safnaði 12 milljónum Bandaríkjadala eða tæplega 1,7 milljörðum króna.

Finnsk-íslenska tölvuleikjafyrirtækið Mainframe safnaði 8,1 milljón Bandaríkjadala, jafnvirði 1,1 milljarðs króna.

DT Equipment (DTE), sem þróaði lausn til að efnagreina fljótandi málm, fékk 5,5 milljóna Bandaríkjadollara fjármögnun, jafnvirði um 765 milljóna.

Athugasemdir