Sex erlendir fjárfestingasjóðir, sem fengu úthlutað tæplega tveggja prósenta eignarhlut í nýafstöðnu hlutafjárútboði Íslandsbanka, seldu öll bréf sín á fyrstu þremur dögunum eftir að bankinn var skráður á markað í síðustu viku. Áætla má að söluandvirðið hafi verið samtals um nærri fjórir milljarðar króna.

Sjóðirnir sem seldu bréf sín í bankanum, samkvæmt lista yfir alla hluthafa Íslandsbanka sem Markaðurinn hefur séð, voru í stýringu hjá Silver Point Capital, Fiera Capital, Fideility, Lansdowne, Key Square Capital og Ghisallo Partners. Vogunarsjóðurinn Silver Point, sem var á meðal tíu stærstu hluthafa bankans við skráningu í Kauphöllina á þriðjudaginn í liðinni viku með 0,6 prósenta hlut, seldi um 15 milljónir hluta að nafnvirði en eignarhlutur annarra sjóða var talsvert minni.

Samanlagt áttu sjóðirnir um 38 milljónir hluta að nafnvirði í bankanum sem þeir keyptu á rúmlega þrjá milljarða króna en útboðsgengið var 79 krónur á hlut. Gengi bréfanna hækkaði talsvert þegar þau voru tekin til viðskipta, strax á öðrum degi var gengið komið í 99 krónur og því hækkað um 25 prósent, og því má áætla að söluhagnaður erlendu sjóðanna af bréfunum hafi numið samtals á bilinu 600 til 800 milljónum.

Á sama tíma hafa hins vegar einnig bæst nýir erlendir fjárfestingasjóðir í hluthafahópinn eftir skráningu bankans, eins og áður hefur verið greint frá í Viðskiptablaðinu, en á meðal þeirra er félagið Al Mehwar Commercial Investments LLC, sem tengist ríkisfjárfestingafélagi í furstadæminu Abú Dabí, og SEI Investments. Eignarhlutur Al Mehwar nemur um 0,9 prósentum, sem er metinn í dag á um 1.850 milljónir króna, og er félagið á meðal tíu stærstu hluthafa bankans.

Samanlagður eignarhlutur erlendra fjárfesta eftir útboð Íslandsbanka, þar sem ríkissjóður seldi 35 prósenta hlut fyrir 55,3 milljarða, nam um 11 prósentum. Í dag má áætla að hann hafi minnkað lítillega og nemi um tíu prósentum. Stærstu erlendu hluthafarnir eru sjóðir í stýringu Capital Group, RWC Asset Management, Al Mehwar, Mainfirst, Eaton Vance, Franklin Templeton og Schroder.

Íslenskir lífeyrissjóðir, einkum Gildi, hafa á undanförnum dögum verið að bæta nokkuð við eignarhlut sinn í bankanum. Eignarhlutur Gildis nemur í dag 3 prósentum og hefur sjóðurinn bætt við sig um 0,7 prósenta hlut frá skráningu