Af 20 stærstu hluthöfum Íslandsbanka er níu erlendir aðilar. Íslandsbanki birti í morgun lista yfir stærstu hluthafa bankans með tilkynningu til kauphallar.

Fyrir lá að Capital World og RWC Asset Management yrðu meðal svokallarða hornsteinsfjárfesta bankans. Capital World heldur á 3,8 prósenta hlut og RWC 1,5 prósentum. Þriðji stærsti erlendi sjóðurinn er Mainfirst affiliated fund managers með 0,8 prósent, svo Silverpoint og Eaton Vance með 0,6 prósent hvor.

Aðrir erlendir sjóðir meðal stærstu hluthafa eru Frankling Templeton Investment Management (0,4 prósent), Premier Fund Managers (0,4 prósent), Fiera Management (0,3 prósent) og Schroder Investment Management (0,3 prósent).

Lífeyrisjóður starfsmanna ríkisins (LSR) fékk um 1,5 prósent hlut í hlutafjárútboði Íslandsbanka og er því stærstur hluthafa eftir útboðið, utan þeirra sem höfðu náð samkomulagi um að vera hornsteinsfjárfestar fyrir útboðið. A-deild LSR heldur á 1,2 prósent hlut og B-deildin 0,3 prósent.

Lífeyrissjóðirnir Gildi og Live höfðu samþykkt að vera hornsteinsfjárfestar í útboðinu og eru því stærstir meðal íslenskra lífeyrissjóða með 2,3 prósent hlut hvor.

Almenni lífeyrissjóðurinn (0,8 prósent), Brú (0,5 prósent) og Stapi (0,4 prósent) fylgja þar á eftir meðal íslenskra lífeyrissjóða.

Utan tveggja sjóða í rekstri Íslandsbanka, IS EQUUS og IS hlutabréfasjóðs, er enginn íslenskur sjóður í rekstri íslensks félags í hópi 20 stærstu hluthafa.

Ríkissjóður er eftir útboðið ennþá stærsti hluthafi bankans með 65 prósent hlut. Frá því að bréf bankans voru tekin til viðskipta í gær hefur gengið þeirra hækkað um tæplega 20 prósent frá útboðsgenginu, úr 79 krónum í 94,6 krónur fyrir hlutinn.