Hluta­fjár­út­boð Ís­lands­banka hefst í dag og stendur yfir til 15. júní næst­komandi en útboðið hefst klukkan 09:00. Út­boðið nær til allt að 35 prósent af heildar­hluta­fé bankans og er leið­beinandi verð á bilinu 71 til 79 krónur á út­boðs­hlut.

Á­ætlað markaðs­virði bankans í útboðinu er því 150 milljarðar króna, að því gefnu að verð á útboðshlut verði við miðju leiðbeinandi verðbils, en hluta­féð er þannig selt á genginu 0,77 til 0,85 af bókfærðu eigin fé bankans í lok fyrsta ársfjórðungs. Ríkissjóður, sem er eigandi alls hlutafjár í Íslandsbanka, bókfærir hlut sinn í dag á genginu 0,8 í ríkisreikningi.

Út­boðið mun ná til allt að 636.363.630 af út­gefnu hluta­fé bankans, auk þess sem sölu­ráð­gjöfum hefur verið heimilað að kaupa val­réttar­hluti sem eru í­gildi tíu prósenta af út­boðs­hlutum til að mæta um­fram­eftir­spurn. Í heildina nema út­boðs­hlutirnir að há­marki 35 prósent af heildar­hluta­fé bankans.

Tveir er­lendir fjár­festingar­sjóðir, Capi­tal World Investors og RWC Asset Managa­ment, og ís­lensku líf­eyris­sjóðirnir Gildi og LIVE, eru horn­steins­fjár­festar í út­boðinu. Hver um sig hafa fjár­festarnir skuld­bundið sig til að kaupa 76.923.077, 30.769.231, 46.153.846 og 46.153.846 hluti á endan­legu út­boðs­gengi. Það jafngildir samanlagt um tíu prósenta hlut í bankanum.

„Ég hlakka til að kynna Ís­lands­banka fyrir væntan­legum fjár­festum á komandi kynningar­fundum og um leið stefnu okkar um þróun á starf­semi bankans,“ segir Birna Einars­dóttir, banka­stjóri Ís­lands­banka, í til­kynningu um málið, en að hennar sögn hefur Ís­lands­banki lagt grunn að sterku og far­sælu við­skipta­líkani frá því að hún tók við starfinu árið 2008.

„Þetta líkan hefur staðist þær á­skoranir sem komið hafa upp vegna heims­far­aldursins og bankinn er því í stakk búinn að njóta góðs af endur­reisn ís­lenska hag­kerfisins. Ég tek því fagnandi að eiga þess kost að koma bankanum á ný í eigu einka­aðila,“ segir Birna.

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, segir á­nægju­legt að sjá út­boðið hefjast eftir mikla vinnu síðustu mánuði. „Það hefur lengi staðið til að draga úr um­fangs­miklu eignar­haldi ríkisins á fjár­mála­markaði og koma hér á fyrir­komu­lagi í líkingu við það sem þekkist í ná­granna­löndum okkar. Út­boðið er fyrsta skref í þá átt,“ segir Bjarni.

Lárus Blön­dal, stjórnar­for­maður Banka­sýslu ríkisins, segir enn fremur að út­boðið sé mikil­bægt augna­blik fyrir Banka­sýslu ríkisins, sem sér um út­boðið fyrir hönd Ríkis­sjóðs Ís­lands, og bætir við að sölu­með­gerðin hafi gengið sam­kvæmt á­ætlun. „Við erum þess full­viss að Ís­lands­banki eigi sér trausta fram­tíð sem skráð fé­lag á markaði,“ segir Lárus.