Efnahagshorfur á Íslandi eru mun bjartari en margra annarra ríkja á Vesturlöndum. Af þeim sökum munu erlendir fjárfestar horfa í meira mæli til Íslands. Þetta segir Steingrímur Arnar Finnsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, hjá Fossum mörkuðum.

„Við erum í úrvalsdeild þegar litið er til getu hagkerfisins til að vinna sig úr Covid-19 heimsfaraldrinum, hvort sem litið er til hagvaxtarhorfa eða aðstöðu til að greiða niður ríkisskuldir,“ segir Steingrímur Arnar. „Íslenska hagkerfið á mun betri möguleika á kröftugri viðspyrnu en önnur þróuð lönd,“ bætir hann við.

Steingrímur Arnar Finnsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta.
Mynd/Fossar

Steingrímur Arnar segir að íslenska ríkið geti á næstu tveimur til þremur árum greitt niður lán sem taka þurfti til að takast á við Covid-19. Við það muni lánshæfiseinkunn ríkisins verða betri en margra annarra vestrænna ríkja. „Það vinnur einnig með Íslandi að Seðlabankinn varð ekki að grípa til magnbundinnar íhlutunar sem margar aðrar þjóðir hafa orðið að beita í miklum mæli,“ segir Steingrímur Arnar. Magnbundin íhlutun er ígildi peningaprentunar en slíkt stuðlar alla jafna að verðbólgu.

Sérfræðingar á markaði hafa sagt við Markaðinn að það að hagvaxtarhorfur hérlendis hafi ekki verið betri en annars staðar hafi dregið úr áhuga erlendra fjárfesta hér á landi.

Steingrímur Arnar tekur ekki að öllu leyti undir það og segir að margvíslegar ástæður liggi að baki því að erlendir fjárfestar hafi dregið úr umsvifum sínum á íslenska hlutabréfamarkaðnum. „Þegar óvissan í efnahagslífinu var hvað mest í mars, apríl í fyrra, var íslenski hlutabréfamarkaðurinn ekki ódýr í samanburði við önnur lönd,“ segir hann og nefnir að við það hafi ýmsir erlendir fjárfestar kosið að selja hér á landi og kaupa hlutabréf í öðrum löndum.

Hann segir að nú hafi þeir erlendu fjárfestar sem höfðu hug á því að selja hlutabréf sín á Íslandi gert það. „Við erum búin að núllstilla kerfið fyrir árið 2021.“

Aðspurður hvort mat erlendra fjárfesta á hver gengisþróun krónu verði á næstunni muni hafa mikið að segja um hvort þeir fjárfesti hérlendis, bendir hann á að fjárfestar geti varið sig gagnvart gengis­áhættu. „Flestir fjárfestar sjá tækifæri ef það er meðvindur og hér eru góðar aðstæður hvað það varðar. Auk þess hefur Seðlabankinn tekið hlutverk sitt alvarlega og dregið úr gengissveiflum. Það hefur aukið tiltrú á krónuna og nú er verðmyndun á gjaldeyrismarkaði mun dýpri en áður. Það eykur áhuga erlendra fjárfesta,“ segir Steingrímur.

Steingrímur Arnar segir að útflutningur frá Íslandi sé orðinn fjölbreyttari en fyrir fáeinum árum þegar ferðaþjónustan varð stærsta atvinnugreinin þegar kemur að gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Ferðaþjónusta verði áfram umsvifamikil en þó ekki jafn hlutfallslega stór og þegar mest var. Sjávarútvegur, meðal annars fyrir tilstuðlan laxeldis, líftækni og hugverkaiðnaðar, fari hratt vaxandi.