Norðmenn, Bretar og Frakkar sýna því mikinn áhuga að ferðast til Íslands þrátt fyrir að umfjöllun um Ísland í erlendum fjölmiðlum sé í lágmarki um þessar mundir. Þetta eru niðurstöður stafrænnar auglýsingaherferðar sem birtingahúsið MediaCom gerði fyrir viðskiptavin sinn en hún var birt var frá jólum og fram í miðjan janúar.

„Við höfum ekki áður upplifað jafn mikla smellivirkni á vefauglýsingaborða sem auglýsa Ísland sem áfangastað,“ segir Diðrik Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri stafrænna miðla hjá MediaCom. Hann segir að um átta prósent þeirra sem sáu vefborðana hafi smellt á þá.

„Við höfum ekki áður upplifað jafn mikla smellivirkni á vefauglýsingaborða sem auglýsa Ísland sem áfangastað.“

„Það er athyglisvert að konur eldri en 45 ára höfðu meiri áhuga en aðrir og smelltu í 20 prósent tilvika. Það er mun hærra hlutfall en hefur mælst áður af slíkum herferðum sem fyrirtækið hefur unnið með á erlendum mörkuðum,“ segir Diðrik Örn.

Herferðin var sýnd í Bandaríkjunum og Kanada, Evrópu og á Norðurlöndunum. Íbúar frá Bandaríkjunum og Kanada sýndu auglýsingaherferðinni lítinn áhuga.

Flestir að skoða í spjaldtölvum

„Konur, 65 ára og eldri, í Bretlandi, Frakklandi og Noregi sýndu auglýsingunum mestan áhuga. Yfirleitt horfa flestir á netauglýsingar í síma en það var athyglisvert að nú sáu flestir þær í spjaldtölvum. Ég tel að það megi rekja til þess að fólk er heima hjá sér í spjaldtölvunni í ró og næði að velta fyrir sér ferðalögum af meiri alvöru en þegar slíkt er gert í gegnum síma. Þá eru meiri líkur á að þeir sem eru í ferðahugleiðingum gangi frá sölunni,“ segir Diðrik Örn sem lætur þess getið að COVID-19 faraldurinn hafi verið skæður á sama tíma í löndunum þremur.

Gott væri að fá umræddan hóp til Íslands. „Þessi hópur, konur sem eru 65 ára og eldri, hefur meiri tíma til að ferðast og hefur alla jafna meira á milli handanna en þeir sem yngri eru. Að sama skapi gæta þau sín meira á COVID-19. Það eru mikil tækifæri fólgin í því fyrir íslenska ferðaþjónustu að nú er Ísland skilgreint sem grænt COVID-land. Það væri skynsamt að reka auglýsingaherferðir sem byggja á fallegri náttúru og reyna að fá fólk til að ganga frá bókun gegn afslætti. En svo mun skipta höfuðmáli hvernig ferðatakmarkanir verða við landamærin í sumar hvernig áhugi á Íslandi sem ferðamannalandi mun þróast. Það er ekki nóg að skapa áhuga á að ferðast hingað heldur þarf fólk að geta komist hingað tiltölulega auðveldlega,“ segir hann.

32 leituðu að strákaferð

Á sama tíma var keyrð leitarorðaauglýsing á Norðurlöndunum og í Frakklandi. Leitarorðavirknin jókst ekki í Frakklandi en herferðin gaf góða raun á Norðurlöndunum. Flestir leituðu að orðum á borð við Ísland, hótel og gisting. „Í Noregi voru þó 32 sem leituðu að strákaferð til Íslands,“ bendir Diðrik Örn á.

Að hans sögn er umfjöllun um Ísland í erlendum fjölmiðlum innan við tíundi hluti af því sem hún var í sumar og vitnar í samantekt almannatengslafyrirtækisins Cohn & Wolfe á Íslandi, sem er systurfyrirtæki MediaCom.

Ferðaþjónusta auglýsir lítið

Diðrik Örn segir að hugsanlega megi skýra þennan óvenju góða árangur með því að lítið sé auglýst í ferðaþjónustu um þessar mundir. „Fyrirtækin eru öll einfaldlega í sárum, og það ekki bara á Íslandi. Það er hins vegar ljóst, og á það hafa bæði MediaCom og Cohn & Wolfe á Íslandi bent viðskiptavinum á undanfarið ár, að ef yfir höfuð er kostur á að setja eitthvað fé í stafrænar auglýsingar þá sé tækifæri til að ná til tilvonandi viðskiptavina með hagkvæmari hætti núna en áður,“ segir hann.