Erfitt er fyrir fyrstu kaup­endur að koma sér inn á fast­eigna­markaðinn í dag. Mikil eftir­spurn er á markaðinum og fram­boðið lítið.

Páll Heiðar Páls­son, fast­eigna­sali hjá 450 fast­eigna­sölu, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að margir séu að reyna að koma sér inn á markaðinn um þessar mundir. Fram­boðið sé það lítið að margir sitji um hverja eign.

„Mín upp­lifun er sú að það er yfir­leitt verið að bjóða yfir aug­lýst verð eins og staðan er núna. Sér­stak­lega ef eignin er undir 50 milljónum króna. Þessar litlu eignir eru að fara mjög hratt," segir Páll.

Samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur framboð á íbúðum til sölu dregist saman um rúmlega helming á höfuðborgarsvæðinu frá því það náði hámarki í vor. Í maí 2020 voru um 2.200 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu á hverjum tíma en fjöldinn er nú komin undir 1.000.

Á sama tíma hafa í­búðir aldrei selst jafn hratt og nú en sölu­tíminn á höfuð­borgar­svæðinu í októ­ber og nóvember var um 46 dagar en var næstum 60 dagar í upp­hafi árs. Á lands­byggðinni er meðal­sölu­tíminn komin niður í 66 daga eftir að hafa verið 81 dagur í upp­hafi árs .

Seljast á yfirverði

Hlut­fall í­búða sem seldust yfir á­settu verði á höfuð­borgar­svæðinu mældist um 22 prósent í nóvember, sam­kvæmt þriggja mánaða meðal­tali, og tæp 24 prósent á á­settu verði. Þannig seldust rúm­lega 46 prósent í­búða annað hvort á eða yfir á­settu verði saman­borið við tæp 25 prósent í byrjun ársins. Að­eins yfir sumar­tímann árið 2007 hefur hlut­fallið mælst hærra á svæðinu.

Mikil á­sókn í í­búðir og tak­markað fram­boð virðist hafa sett þrýsting á í­búða­verð á höfuð­borgar­svæðinu, en 12 mánaða breyting á vísi­tölu sölu­verðs nam um 7,7 prósent í nóvember saman­borið við 6,7 prósent í októ­ber.

Ekki gott að bíða heldur

„Ég myndi ekki vilja vera fyrsti kaupandi sjálfur eins og staðan er núna. Al­mennt er mjög lítið að koma inn á markaðinn og sam­keppnin er svo mikil," segir Páll.
Hann segir að þrátt fyrir að að­stæður séu erfiðar þá sé einnig erfitt að ráð­leggja fólki að bíða með að fjár­festa.
„Það sér ekki fyrir endann á þessu fyrr en seinni partinn á þessu ári og fólk græðir ekkert á því að bíða. Íbúð sem þú kaupir í dag mun hækka í verði eftir ár."

Páll segir að í síðustu viku hafi komið nærri 600 nýjar eignir inn á markaðinn á höfuð­borgar­svæðinu. „Á fast­eigna­vefnum eru kannski um 20 þúsund manns að leita að eignum þannig það gefur auga leið að 600 eignir er alls ekki nóg," bætir Páll við.
Hann segir að þetta velti einnig mikið á ný­byggingum. „Á meðan það eru fáar eða engar ný­byggingar á markaðinum þá er fólk ekki að hreyfa sig, t.d. þeir sem vilja minnka við sig. Það er ekki mikið að gerast í þessum málum akkúrat núna en þetta ætti að breytast þegar það líður á árið og þá ætti að losna um meira hús­næði."

Í skýrslu HMS segir að eftir­spurn eftir fast­eignum hafi sjaldan verið jafn mikil og nú sem er lík­legt til að örva fjár­festingu í í­búða­upp­byggingu. Hlut­deildar­lánin sem HMS hefur ný­lega hafið veitingu á hafa að sama skapi átt sinn þátt í að hafa já­kvæð á­hrif á væntingar á byggingar­markaði.

Betra ef hlutdeildarlán næðu til endursölumarkaðs

Páll segir að það góða við hlut­deildar­lánin er að þeir sem nýti sér það úr­ræði hafi í raun ekki séð fram á að fara á fast­eigna­markaðinn áður vegna þess að þeim skorti eigið fé og vanti út­borgun. Því eru margir af þeim sem nýta sér þessu lán í raun nýir kaup­endur á markaðinum. Veik­leikinn við úr­ræðið sé hins vegar að þau miðist að­eins við ný­byggingar.

„Ég hefði vilja sjá þau við endur­sölu­markaðinn og á­kveðið há­mark í verði en ný­byggingar á höfuð­borgar­svæðinu eru oft á tíðum hátt verð­lagðar miðað við eignir í kringum höfuð­borgar­svæðið," segir Páll að lokum.