Már Wolfgang Mixa hagfræðingur segir engar augljósar skýringar á því að gengi íslensku krónunnar hefur fallið hratt upp á síðkastið. Staða krónunnar gagnvart evru er 9 prósentum veikari en í júní. Eru íslenskir ferðalangar á erlendri grundu meðal þeirra sem hafa fundið fyrir breytingunni, þar sem ferð getur kostað 10 prósentum meira en fyrir skemmstu.

Már nefnir sem hugsanlegar skýringar á veikingu krónunnar að vangaveltur séu um að lífeyrissjóðir séu að færa fjármagn meira í erlendar fjárfestingar.

Önnur skýring sé að ansi margir Íslendingar hafi farið til útlanda upp á síðkastið og verið á faraldsfæti. Gengi gjaldmiðla sé eins og gengi hlutabréfa hvað það varði að það byggist að stóru leyti á væntingum ekki síður en stöðunni hverju sinni.

„Það er erfitt að átta sig á hve mikil ítök Seðlabankinn hefur í veikingu eða styrkingu,“ segir Már. Gengisfallið er ekkert til að hafa áhyggjur af að sögn Más. Augljóslega aukist þó verðbólguvæntingar, en ekkert í farvatninu gefi til kynna að viðvarandi veikingaskriða sé í aðsigi. „Sjávarútvegurinn og allar útflutningsgreinar njóta þessa ástands,“ segir Már.

„Það má kannski rifja upp að þegar krónan var sem sterkust, 2017–2018, kvörtuðu aðilar sem byggðu rekstur sinn að miklu leyti á útflutningi undan ástandinu. Það er kannski eftir meiru að slægjast að gjaldmiðill sé stöðugur fremur en ofursterkur.“