Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna og garðyrkjubóndi, segir miklar tafir á afhendingu umbúða fyrir landbúnaðarvörur í kjölfar kórónaveirufaraldursins. Bið eftir umbúðum sé allt að átján vikum.

„Ég þarf að bregðast við í nauðvörn, því miður, þetta hefur heilmikil áhrif,“ segir Gunnar. „Mínir birgjar fá ekki það sem þeir þurfa til að framleiða umbúðirnar og þar af leiðandi fæ ég ekki umbúðirnar, eitt leiðir af öðru.“

Gunnar segist geta pakkað grænmetinu sem hann ræktar og selt það í búðir en ekki í þær umbúðir sem hann kýs.

„Ég er búinn að vera að reyna að kaupa pappírsumbúðir utan um afurðirnar hjá mér síðan í janúar en síðustu fréttir sem ég fékk voru þær að við fáum þetta ekki afgreitt strax vegna þess að birgjarnir fá ekki pappír.“

Gunnar hafði stefnt að því að skipta sem mestu af sínum umbúðum úr plasti í pappír en segir að auðveldara sé að fá umbúðir úr plasti.

„Ég veit samt ekki hvað það verður auðvelt lengi, ætli menn þurfi ekki að fara að skipuleggja sig lengra fram í tímann og kannski fara að huga að því að panta jafnvel rúlluplast fyrir næsta vor,“ segir Gunnar og bendir á að rúlluplast panti flestir yfirleitt í janúar eða febrúar.

Bændasamtökin gefa út Bændablaðið og segir Gunnar að í blaða­útgáfunni sé einnig farið að bera á pappírsskorti.

„Við höfum fengið beiðni frá prentsmiðjunni um áætlun um stærð blaðanna fram að áramótum svo þeir geti verið vissir um að eiga pappír í blaðið.“