Lee Jae-yong, sem stýrir í raun Samsung samstæðunni, segir að hann stefni ekki á að börn hans muni stýra fyrirtækinu þegar fram í sækir. Hann er sjálfur þriðji í röðinni hjá fjölskyldunni til að stýra Suður Kóreska fyrirtækinu.

Fullyrðingin er liður í tilraun Lee, varaformanns stjórnar Samsungs, til að komast hjá því að fara aftur í fangelsi vegna ákæru um mútur í tengslum við hver taki við stjórnartaumum Samsungs og svara gagnrýni þess efnis að yfirráð fjölskyldunnar á fyrirtækinu sé ógagnsætt, segir í frétt Financial Times.

„Ég stefni ekki á að börn mín taki við hlutverki mínu hjá fyrirtækinu. Ég hef hugsað um það lengi en hef verið hikandi við að ræða það opinberlega,“ sagði hann.

„Ég stefni ekki á að börn mín taki við hlutverki mínu hjá fyrirtækinu.“

Afinn stofnaði matvöruverslun

Samsung var stofnað sem matvöruverslun árið 1938 af afa Lee Jae-yong, honum Lee Byung-chul. Lee Jae-yong hefur stýrt fyrirtækinu frá árinu 2014 þegar faðir hans, Lee Kun-hee, fékk hjartaáfall.

Rétt eins og fleiri erfingjar stórra fjölskyldufyrirtækja í Suður Kóreu, kölluð chaebol, hefur hann verið vændur um spillingu.

Höfða á aftur mál gegn honum fyrir að múta fyrrverandi forseta Suður Kóreu, Park Geunhye. Hann var dæmdur í fangelsi fyrir það árið 2017.

Þyrnir í augum fjárfesta

Svokölluð chaebol hafa lengi verið þyrnir í augum fjárfesta sem telja að stjórnendur þeirra hafi hag fjölskyldunnar fremur að leiðarljósi en minni fjárfesta. Sumir greinendur telja að tengsl slíkra fjölskylda við stjórnmál og flókið eignarhald fyrirtækja hafi dregið úr vexti þeirra og leitt til þess að markaðsvirði fyrirtækjanna er lægra en efni standa til.

Sea-jin Chang, prófessor við National University of Singapore, segir að mat Lee virðist raunsætt vegna þess að erfðafjárskattur í Suður Kóreu geri það að verkum að það verði æ erfiðara fyrir fjölskyldur að halda í stjórnartauma á viðskiptaveldum sínum.

„Lee Jae-yong hefur gert nokkrar atrennur að því að greiða ekki erfðafjárskatt en ávallt mistekist. Hann hefur horfst í augu við það að það verður ómögulegt að fara fram hjá skattinum fyrir næstu kynslóð,“ segir Chang.

„Lee Jae-yong hefur gert nokkrar atrennur að því að greiða ekki erfðafjárskatt en ávallt mistekist.“

Erfðafjárskatturinn er 50 prósent og hækkar í 65 prósent ef sá sem nýtur góðs af arfinum er stærsti hluthafi fjölskyldufyrirtækis. Skatturinn er einn sá hæsti í OECD-ríkjunum.

Aðrir eru fullir efasemda um hvernig efna megi loforð sem gefið er núna eftir 20 til 30 ár.

Á tiltölulega lítinn hluta

Lee fjölskyldan á einungis um 5,8 prósent í Samsung Electronics, sem er krúnudjásn samstæðunnar en tengd fyrirtæki sem fjölskyldan á stærri hlut í á 15,4 prósenta hlut.

Lee Jae-yong á tvö börn sem eru enn í skóla og starfa ekki fyrir Samsung.