Eðlilegt að fyrirtækin hugsi sig vel um áður en þau ákveða að framleiða hérlendis til útflutnings. Engum er greiði gerður að ný fyrirtæki séu sett á stórsjó íslenskra gengis- og launamála þar sem viðskiptaáætlanir þurfa að gera ráð fyrir 25-30 prósenta sveiflum á gengi yfir tiltölulega skamman tíma. Fá fyrirtæki ráða við slíkar sveiflur og fjárfestar sýna lítinn áhuga. Þetta kemur fram í greiningu Sjávarklasans.

Greinendur Sjávarklasans ræddu við forsvarsmenn tíu frumkvöðlafyrirtækja og um stöðu og horfur í rekstri.  Í stuttu máli hafa nær öll fyrirtækin átt í erfiðleikum með útflutning vegna gengishækkana og aukins innlends kostnaðar. Sum þeirra hafa flutt framleiðslu sína til Evrópu og með því lækkað framleiðslukostnað niður um tugi prósenta. Dæmi eru um allt að 60 prósenta sparnað með flutningi framleiðslu. Þá reynist flutningskostnaður minni enda er framleiðslan komin nær markaði.

Frumkvöðull í matvælum segir í greiningu Sjávarklasans: „Þegar við unnum fyrstu viðskiptaáætlanir okkar vorum við að hugsa um að byrja með sölu í Danmörku. Þá var ætlunin að selja vöruna með 40 prósenta framlegð og það gekk upp miðað við gengi þá. Síðan styrktist krónan um allt að 30 prósent gagnvart dönsku krónunni og þá var ábatinn að mestu þurrkaður út.“ Við gengisstyrkingu bættist að laun og annar kostnaður hérlendis hafi hækkað og þegar það sé tekið með í reikninginn skilaði útflutningurinn tapi.

Erlendis er frumkvöðlum boðin þjónusta og fríðindi

Fram kemur í greiningunni að stjórnvöld og sveitarfélög í nágrannalöndunum hafi boðið ýmsum frumkvöðlafyrirtækjunum áhugaverða þjónustu og fríðindi séu fyrirtækin reiðubúin að flytja starfsemina til landanna. Íslensk fyrirtæki hafa nýtt sér þessi tilboð.

Íslenskt frumkvöðlafyrirtæki í sjávartækni nýtti sér slíka þjónustu þegar það flutti framleiðslu sína til Norðurlandanna. Dönsk og norsk stjórnvöld hafa sýnt nokkrum íslenskum fyrirtækjum sem tengjast Sjávarklasanum mikinn áhuga og hafa boðið bæði aðstöðu og fríðindi fyrstu ár starfseminnar.

„Hérlendis hefur líklega meira kapp verið lagt á að passa upp á að ekkert íslenskt fyrirtæki njóti einhverra mögulegra forréttinda á við erlend samkeppnisfyrirtæki og því eru allar hliðranir hér mjög erfiðar. Fyrirtækin sem rætt var við og sem hafa reynslu af samstarfi við stjórnvöld utan Íslands telja sum hver að hvergi annars staðar sé fylgt svo fast eftir EES reglum að þessu leyti eins og á litla Íslandi,“ segir í greiningunni.

Mikilvægt er einnig, segir Sjávarklasinn, að skoða hvernig megi hlúa betur að fyrirtækjum sem vilja eða þurfa að halda framleiðslu áfram hérlendis meðal annars vegna nálægðar við hráefni sem notuð eru. 

Í samtölum Sjávarklasans við frumkvöðlafyrirtækin kom fram að forsvarsmenn þeirra sjái tækifæri í auknu samstarfi fyrirtækjanna um flutninga og hugsanlega sameiginlegar vörugeymslur erlendis. Með samvinnu á þessum sviðum má spara umtalsverða fjármuni. 

„Annað tækifæri sem íslensk fyrirtæki þurfa að athuga snertir vörumerki. Skoða þarf vel hvort sameiginleg nýting vörumerkisins Icelandic, sem nú er í eigu íslenskra stjórnvalda, geti nýst fyrirtækjunum,“ segir í greiningunni.

Vildu ekki samstarf af ótta við samkeppni

Reynslusögur frumkvöðlafyrirtækjanna eru afar mismunandi þegar kemur að samstarfi við innlenda framleiðendur. Í einu tilfelli hófu frumkvöðlafyrirtæki og rótgróið iðnfyrirtæki samstarf þar sem iðnfyrirtækið hugðist framleiða vörur fyrir frumkvöðlafyrirtækið. Fljótlega kom í lós að iðnfyrirtækið óttaðist samkeppni frá frumkvöðlafyrirtækinu og varð lítið úr samstarfinu.

„Í nokkrum tilfellum virðast iðnfyrirtækin orðin svo vanaföst að erfitt er fyrir þau að opna dyr fyrir frumkvöðla - jafnvel þótt núverandi nýting tækjabúnaðar þeirra sé oft aðeins 20-30 prósent af fullri framleiðslugetu,“ segir í greiningunni.

Úr hugbúnaðargeiranum heyrast svipaðar reynslusögur þar sem nýsköpunarfyrirtæki hafa átt erfitt með að eiga samstarf meðal annars við opinberar stofnanir sem sumar virðast telja nýsköpun leiða til aukinnar samkeppni við stofnanir eða þau vilja fá allt án endurgjalds.

„Þessar reynslusögur eru sem betur fer þó ekki allar á einn veg. Dæmi eru um matvælaframleiðendur sem hafa reynst frumkvöðlum afar vel. Þar er m.a. um að ræða fyrirtæki í sjávarútvegi og landbúnaði. Bestu dæmin um þetta má meðal annars finna í sjávarútvegi þar sem mörg tæknifyrirtæki hafa notið þess hve mikill áhugi hefur verið á tækninýjungum í sjávarútvegi og fiskvinnslu og samstarfi við frumkvöðla í tæknifyrirtækjum.“