EpiEndo Pharmaceuticals hefur þróað afleiðu af lyfinu Zitromax, en vísbendingar eru um að það hafi virkni gegn COVID-19 sjúkdómnum. Stefnt er að því að senda efnin til frekari rannsókna á erlendum rannsóknastofum. Ef niðurstöðurnar verða jákvæðar gæti lyfið sem EpiEndo er að þróa leikið hlutverk í baráttunni gegn veirufaröldrum framtíðarinnar.

„Við erum í samskiptum við erlendar rannsóknastofur sem eru með sýni af SARS-CoV-2 veirunni og stefnum á að senda þeim okkar efni til frekari rannsókna sem vonandi sýna fram á virkni gegn áhrifum veirunnar í dýrum,“ segir Fredrik Lehmann, forstjóri íslenska lyfjaþróunarfyrirtækisins, í samtali við Markaðinn. Fyrirtækið var stofnað af Friðriki Rúnari Garðarssyni lækni árið 2014.

Nýlegar niðurstöður úr athugun í Frakklandi benda til þess að blanda malaríulyfsins Chloroquine og sýklalyfsins Azithromycin (Zitromax) hafi góða virkni gegn COVID-19-sjúkdómnum.

Kórónaveiran sest á þekjuna í öndunarveginum og fer inn í þekjufrumurnar. Hún fjölgar sér í frumunum og eyðileggur þannig þekjuna. Sjúkdómsferlið er viðgerð líkamans á þekjunni. Zitromax er eitt af fáum lyfjum sem bæla niður þráláta sjúkdóma í öndunarfærum. Almennt hefur verið talið að það sé vegna bólgueyðandi eiginleika en einnig virðist vera að lyfið styrki þekju öndunarvegarins.

„Þetta er ástæðan fyrir því að við teljum að efnin okkar verki gegn áhrifum veirunnar í öndunarveginum. Samkvæmt fræðunum virðist svo vera en þörf er á frekari rannsóknum,“ segir Fredrik. Hann tekur skýrt fram að EpiEndo sé ekki að þróa lyf við kórónaveirunni heldur að athuga hvort lyfið hafi einhverja virkni gegn veirusjúkdómum í víðari skilningi.

Fredrik Lehmann, forstjóri EpiEndo Pharmaceuticals.

„Það vill svo til að fyrir jól ákváðum við að rannsaka hvort lyfið sem við erum að þróa hefði veiruhamlandi eiginleika. Það var ekki uppleggið þegar við hófum þetta ferli. Við lögðum upp með að þróa lyf gegn sjúkdómum í öndunarfærum á borð við langvinna lungnateppu og astma,“ segir Fredrik Lehmann.

Enn langt í land

EpiEndo á von á niðurstöðum úr fyrstu veirurannsókn sinni í lok þessarar viku eða næstu viku. Þar voru rannsökuð áhrif lyfsins gegn RS-veirunni sem veldur skæðri lungnabólgu í börnum.

„Þegar næsti faraldur hefst verður lyfið vonandi komið á markað svo hægt sé að nota það gegn sjúkdómnum ef það hefur slíka virkni“

Ef lyfið sem EpiEndo er að þróa fær enga hraðmeðferð hjá Lyfjastofnun Evrópu, mun ekki vera hægt að skrifa upp á það fyrr en árið 2027 eða 2028. Stjórnendur EpiEndo gera sér hins vegar væntingar um að lyfið fáist samþykkt fyrir sjúklinga sem eru hvað lengst leiddir á árinu 2025.

„Það er langt í land en hafa ber í huga að veirufaraldrar herja á heimsbyggðina með reglulegu millibili. Við höfum séð að það getur reynst snúið að þróa bóluefni gegn veirum og þess vegna er þörf á nýjum leiðum til að meðhöndla veirusjúkdóma. Þegar næsti faraldur hefst verður lyfið vonandi komið á markað svo hægt sé að nota það gegn sjúkdómnum ef það hefur slíka virkni,“ segir Fredrik.

Ekki hægt að nota gamla lyfið á stórum skala

Ástæðan fyrir því að Zitromax er ekki notað til meðhöndlunar þrálátra öndunarvegasjúkdóma er sú að útbreidd langtímanotkun leiðir óhjákvæmilega af sér myndun ónæmra bakteríustofna gegn sýklalyfinu. Það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og þess vegna eru takmarkaðir möguleikar á notkun Zitromax gegn veirufaraldri.

„Okkar lyf gæti orðið sjálfbær lausn sem hægt er að nota á stórum skala til lengri tíma.“

EpiEndo hefur hins vegar fjarlægt eiginleika lyfsins sem drepa bakteríur án þess þó að draga úr þekjueflandi og bólgueyðandi eiginleikum þess. Útbreidd notkun til lengri tíma skapar því ekki hættu á bakteríuónæmi.

„Sjálfsagt verður Zitromax notað í einhverjum mæli til að bregðast við faraldrinum en það er skammtímalausn. Okkar lyf gæti orðið sjálfbær lausn sem hægt er að nota á stórum skala til lengri tíma,“ segir Fredrik.

Styrkir málstaðinn fyrir næstu hlutafjáraukningu

EpiEndo hlaut á dögunum 340 milljóna króna styrk úr sjóði nýsköpunarnefndar Evrópusambandsins (EIC) vegna þróunar á nýja lyfinu.

Auk styrkveitingarinnar lauk fyrirtækið nýverið tveggja milljóna evra hlutafjáraukningu eða sem svarar til 275 milljóna króna en frá stofnun hefur fyrirtækið safnað um átta og hálfri milljón evra, eða um 1,2 milljörðum íslenskra króna. Stefnt er að frekari fjármögnun um mitt ár 2020 sem gæti numið um 750 til 1.000 milljónum íslenskra króna þar sem um 400 milljónir gætu komið úr sjóði EIC.

Spurður hvort útbreiðsla kórónaveirunnar hafi einhver áhrif á fjármögnunaráform EpiEndo ítrekar Fredrik að faraldurinn varpi ljósi á mikilvægi nýrra leiða til að meðhöndla veirusjúkdóma. Það geti styrkt málstað fyrirtækisins í næstu hlutafjáraukningu.