Hagnaður húsgagna- og gjafavöruverslunarinnar Epal jókst úr 16 milljónum árið 2019 í 53 milljónir árið 2020. Tekjurnar jukust um 21 prósent á milli ára og námu 1,8 milljörðum króna í fyrra. Þekkt er að Íslendingar lögðu í ýmsar endurbætur á heimilum sínum í Covid-19.

Arðsemi eiginfjár var 12 prósent í fyrra og eiginfjárhlutfallið 64 prósent við árslok. Eigið fé Epal var 471 milljón við árslok en sjóður og bankainnstæður námu 238 milljónum króna í fyrra.

Eyjólfur Pálsson, stofnandi verslunarinnar, á 57 prósenta hlut og Guðmundur Jón Hannesson á 26 prósenta hlut.