Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,7 prósent milli desember og janúar og er þetta annar mánuðurinn í röð sem hækkunin á íbúðaverði mælist mikil. Í desember hækkaði íbúðaverð um 1,8 prósent sem kom nokkuð á óvart þar sem verðþróunin mánuðina á undan hafði gefið tilefni til að ætla að markaðurinn væri farinn að róast. Svo virðist nú sem einhver bið verði á því.

Sérbýli hækkar meira en fjölbýli.

Mesta árshækkun sérbýlis síðan 2006

Fjölbýli hækkaði um 1,8 prósent milli mánaða og sérbýli um 1,1 prósent. 12 mánaða hækkun fjölbýlis mælist nú 19,6 prósent og sérbýlis 22,5 prósent, en vegin hækkun íbúðarhúsnæðis alls mælist 20,3 prósent. 12 mánaða hækkun sérbýlis hefur ekki verið meiri síðan í mars 2006 þegar hækkunin mældist 26,3 prósent. Síðast þegar hækkanir á húsnæðismarkaði voru áþekkar og nú var spennan meiri á markaði fyrir fjölbýli sem hækkaði um allt að 24,4 prósent þegar mest lét í maí 2017. Núna virðist spennan vera meiri á markaði fyrir sérbýli sem hækkar meira en fjölbýli horft til 12 mánaða þróunar.

Raunverð hækkar ekki jafn hratt

Almennt verðlag án húsnæðiskostnaðar hækkaði um 0,16 prósent milli mánaða í janúar og hækkaði raunverð íbúða, þ.e. verð á íbúðum umfram annað almennt verðlag, um 1,5 prósent milli mánaða. Þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem hækkunin mælist 1,5 prósent og er um að ræða talsvert meiri hækkun en sást mánuðina á undan.

Raunverð hækkar minna en nafnverð.

Þróun raunverðs hefur verið rólegri nú en í síðustu hækkunarhrinu á íbúðamarkaði. Nú hækka íbúðir í auknum mæli í takt við annað verðlag, ólíkt því sem gerðist á síðasta verðhækkanatímabili sem náði hámarki um mitt árið 2017. Þá hækkaði íbúðaverð á sama tíma og margt annað verðlag lækkaði vegna gengisstyrkingar.

Húsnæðisliðurinn er stærsta orsök hárrar verðbólgu.

Áhrifin á verðbólgu mikil

Það að verðbólgan sé nú almennari en áður, þ.e. allir liðir virki til hækkunar, gerir það að verkum að afleiðingarnar af hækkandi húsnæðisverði eru alvarlegri en áður. Verðbólga mældist 5,7 prósent í janúar og hafði ekki verið meiri síðan 2012. Horft til undirliða sést að húsnæði skýrir hátt í helming verðbólgunnar. Því telja hagfræðingar Landsbankans mikilvægt að koma böndum á húsnæðismarkaðinn ef hemja eigi verðbólguna almennt.

Árshækkun raunverðs hófstilltari en áður

Líkt og fyrr segir er hækkun raunverðs nokkuð hóflegri en áður hefur sést. 12 mánaða hækkunin mælist nú 16 prósent en var til samanburðar 27 prósent í maí 2017 og hafði þá hækkað talsvert umfram kaupmátt launa. Raunverð er vissulega farið að hækka hraðar en kaupmáttur nú, en munurinn er ekki jafn mikill og var á árunum 2016-2018. Sú staðreynd, ásamt háu hlutfalli fyrstu kaupenda, gefur að mati hagfræðinga Landsbankans til kynna að staða kaupenda sé ekki endilega orðin jafn slæm nú og hún var í síðustu hækkunarhrinu þótt áhrifin af hækkun húsnæðisverðs á verðstöðugleika séu mikil.

Að undanförnu hefur íbúðaverð hækkað með vaxandi hraða á meðan dregur úr hækkun kaupmáttar.

Staðan er engu að síður orðin nokkuð alvarleg og gæti stefnt í lengri og þrálátari verðbólgu en áður var talið ef íbúðamarkaður fer ekki að róast. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tók nokkuð stórt skref í síðustu viku þegar stýrivextir voru hækkaðir um 0,75 prósentustig til þess að slá á eftirspurn á íbúðamarkaði og í hagkerfinu almennt. Nýjustu gögn benda þó til þess að mögulega þurfi að stíga enn stærri skref ef kæla á markaðinn meira.